Innlent

Segir líkur á að kvika sé á leið upp í setlög í Eyjafjarðarál

Kristján Már Unnarsson skrifar
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur telur þykkt sjávarset hindra neðansjávargos.
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur telur þykkt sjávarset hindra neðansjávargos.
Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur í Stykkishólmi, telur miklar líkur á að kvika sé að brjótast upp í setlög á botni Eyjafjarðaáls. Kvikan komist þó ekki upp á hafsbotninn til að gjósa neðansjávar heldur myndi kvikuinnskot inni í setinu.

Þetta kemur fram í grein sem Haraldur birtir í dag á eldfjallabloggi sínu um jarðskjálftahrinuna norðanlands. Haraldur segir að dýpi álsins, þar sem skjálftarnir komi fram, sé um 500 metrar. Þar undir sé um þriggja til fjögurra kílómetra þykkt lag af sjávarseti:

„Eyjafjarðaráll er sigdalur, sem er að gliðna vegna flekahreyfinga. Flekamótin ná alla leið niður í möttul og basaltkvika mun því rísa upp um flekamótin og inn í setlögin."

Haraldur lýsir í grein sinni fyrirbæri sem jarðfræðingar kalli „density filter". Það hafi þær afleiðingar að eðlisþung basaltkvika komist ekki upp á hafsbotninn til að gjósa neðansjávar, heldur myndi kvikuinnskot inni í setinu. Slíkt kvikuinnskot gerist hvað eftir annað á flekamótunum og myndi þá einskonar jólatré inni í setinu.

„Er þetta að gerast undir Eyjafjarðarál í dag?" spyr Haraldur.

„Enginn veit, en líkurnar eru miklar, að mínu áliti."

Hann lýkur grein sinni á þessum orðum:

„Ég tek eftir því að órói hefur verið nokkur á jarðskjálftamælum í grennd við Eyjafjarðarál. Er það vísbending um kvikuhreyfingu? Ég veit ekki."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×