Innlent

Ríkisendurskoðandi hugsi yfir umfjölluninni um Oracle

BBI skrifar
Mynd/Vilhelm
Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi, er hugsi yfir atburðarrásinni í tengslum við birtingu Kastljóss á vinnugögnum og trúnaðarskýrslum Ríkisendurskoðunar, ekki síst yfir þætti núverandi formanns fjárlaganefndar, Björns Vals Gíslasonar, í málinu. Þetta kemur fram í svarbréfi hans sem rætt var á fundi forsætisnefndar Alþingis í hádeginu í dag.

Bréfið er svar við bréfi forseta Alþingis, Ástu R. Jóhannesdóttur, sem sent var eftir að Kastljós fjallaði um kaup ríkisins á fjárhags- og mannauðskerfi (Oracle) á árinu 2001, innleiðingu þess og kostnað við hann. Þar kom fram að dráttur á skýrslu Ríkisendurskoðunar um kerfið sé mjög aðfinnsluverður og megi ekki koma fyrir aftur.

Þetta tekur ríkisendurskoðandi undir og gerir grein fyrir drættinum í minnisblaði sem fylgir bréfinu. Hann segir einnig að hann sé mjög hugsi yfir umfjöllun Kastljóssins. „Þessi gögn voru tekin ófrjálsri hendi úr gagnasafni stofnunarinnar, afrituð og birtust á endanum í útvarpi allra landsmanna," segir hann.

„Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum og áhyggjum yfir því að vinnugögn Ríkisendurskoðunar hafi verið tekin ófrjálsri hendi úr fórum stofnunarinnar og ekki síður að RÚV hafi í ljósi eðlis gagnanna talið það þjóna almannahagsmunum að fjalla um þau og öryggismál upplýsingakerfa með þeim hætti sem gert var,“ segir Sveinn.

Hann er einnig sérstaklega hugsi yfir þætti Björns Vals, en honum var kunnugt um skýrsludrög Ríkisendurskoðunar síðla nóvember 2009 en spurðist aldrei fyrir um þau þar til eftir birtingu Kastljóss á drögunum.

„Ég vil að það komi fram hér að þessi dráttur á frágangi skýrslunnar er í mínum huga alls ekki það sama og rjúfa trúnað við Alþingi eins og ýmsir þingmenn hafa leyft sér að fullyrða,“ segir hann að lokum en viðurkennir að málið hafi reynst stofnuninni erfitt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×