Innlent

Sjö ráðherrar brotið jafnréttislög

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segist ekki hafa íhugað að segja af sér vegna brota hans á jafnréttislögum. Sjö ráðherrar hafa í gegnum tíðina gerst brotlegir við lögin vegna ráðningar karls í stað konu.

Í fréttum okkar í gær sagði formaður Jafnréttisráðs sérkennilegt að yfirmanni dómsvalds þyki í lagi að hann brjóti mannréttindalög og vísaði þar í orð Ögmundur um að huglægt mat hafi að hluta ráðið því að karl var ráðinn í stöðu sýslumannsins á Húsavík.

„Mér finnst ekki í lagi að brjóta mannréttindalög, mér finnst ekki í lagi að brjóta jafnréttislög. Eins og niðurstaða kærunefndar jafnréttisnefndar gengur út á. Auðvitað þykir mér það miður að hún skuli hafa komist að þessari niðurstöðu. Ég taldi mig, og tel mig reyndar enn, hafa á fullkomlega faglegum forsendum tekið ákvörðun með hliðsjón af jafnréttislögum og þeim reglum sem um þau gilda," segir Ögmundur.

Þrátt fyrir harða gagnrýni sér Ögmundur ekki ástæðu til að biðjast afsökunar en hann hefur verið' hvattur til að íhuga afsögn, þar á meðal af formanni VG í Reykjavík.

Hefurðu íhugað afsögn?

„Nei, það hef ég ekki gert."

Tveir ráðherrar í sitjandi ríkisstjórn hafa gerst brotlegir við jafnréttislög, Ögmundur og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, en mál þeirra eru þó ekki einsdæmi, því fleiri ráðherrar hafa gerst brotlegir við lögin vegna ráðningu karls í stað konu, þar á meðal Guðni Ágústsson í landbúnaðarráðherratíð sinni, Björn Bjarnason, í tíð sinni sem dómsmálaráðherra, Sólveig Pétursdóttir, þegar hún gengdi starfi dóms- og kirkjumálaráðherra, Halldór Ásgrímsson sem utanríkisráðherra og Páll Pétursson sem félagsmálaráðherra .

Við þetta má bæta að í máli Sólveigar skipaði sérstök valnefnd karl í Ólafsvíkurprestakall, en hún hafði hið formlega skipunarvald og segir í áliti kærunefndar jafnréttismála að ráðherra „beri endanlega ábyrgð á því að gætt sé réttrar málsmeðferðar við val á prestsefni og að farið sé að jafnréttislögum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×