Innlent

Stálin stinn mætast á makrílfundinum í London

Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri ESB.
Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri ESB.
Áhrifamenn í norskum sjávarútvegi og starfsbræður þeirra í Evrópusambandinu leggja hart að samningamönnum sínum að gefa Íslendingum og Færeyingum ekkert eftir í makríldeilunni, en deilendur koma saman til fundar í London í dag.

Í umfjöllun á vefsíðunni FISHupdate segir að Norðmenn gangi hvað harðast fram í því að gefa Íslendingum og Færeyingum engin tækifæri til að semja um makrílveiðarnar. Norðmenn hafi yfirleitt kallað þessar veiðar sjóræningjaveiðar.

Fram kemur að línurnar voru lagaðar fyrir daginn í dag á fundi Norðmanna og fleiri fulltrúa Evrópusambandsins með Mariu Damanaki sjávarútvegsstjóra sambandsins í síðustu viku. Þar mun Audun Marak framkvæmdastjóri Landssambands útvegsmanna í Noregi hafa lýst þeirri skoðun sinni að enginn samningur væri betri en slæmur samningur. Var Damanaki hvött til þess að beita öllum ráðum í valdi sínu til að ná "sanngjörnum samningi" eins og það er orðað á vefsíðunni.

Þá telja samningamenn Noregs og Evrópusambandsins það vera af og frá að Grænlendingar fái hlutdeild í heildarkvótanum á makríl. Eins og kunnugt er af fréttum er makríll farinn að veiðast í grænlenskri lögsögu. Loks hvetja þeir til viðskiptaþvingana, ef ekki næst samkomulag á fundinum sem hefst nú fyrir hádegið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×