Innlent

Fæddi stúlku hjálparlaust í aftursætinu: "Barnið koma, barnið koma!“

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Hafþór Gunnarsson skrifar
Henni lá á að komast í heiminn stúlkunni sem fæddist í Bolungarvíkurgöngunum í fyrrinótt. Móðir hennar fæddi hana hjálparlaust í aftursæti bíls.

Suphansa vaknaði í fyrrinótt upp með verki. Hún taldi víst að komið væri að fæðingu hjá sér og þau hjónin óku því á stað frá Bolungarvík yfir á Ísafjörð þar sem hún ætlaði að fæða barnið. Þegar þau voru að koma að Bolungarvíkurgöngunum varð henni ljóst að stúlkan ætlaði sér ekki að bíða þar til á spítalann yrði komið. Áður en þau komu að fyrstu hraðamyndavélinni í göngunum var stúlkan komin í heiminn.

Hún segir atburðarrásina hafa verið með ólíkindum. „Þegar við við komum í göngin fór bara allt að koma," lýsir Suphansa. Faðirinn var eðlilega skelkaður. „Ég sagði bara, barnið koma, barnið koma og hann spurði hvað hann ætti að gera. Ég sagði honum að keyra áfram."

Þau komust þó ekki langt, enda lét stúlkan ekki bíða eftir sér. Suphansa fæddi stúlkuna hjálparlaust í aftursæti bílsins. Hún vafði svo barninu inn í úlpu svo því yrði ekki kalt. Stúlkan er hennar annað barn.

Þá bað hún manninn sinn um að hringja í Neyðarlínuna. Hann virðist hafa verið í nokkru áfalli því hann mundi í fyrstu ekki eftir að hafa tekið símann sinn með sér. Hann reyndist þó vera í brjóstvasanum hjá honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×