Lífið

Ég verð að vera einhvers staðar

Leiklistarhátíðinni Lokal 2012 er nú lokið. Um helgina gaf að líta ýmislegt skemmtilegt og nýstárlegt innan sviðslistarinnar í Reykjavík. Að þessu sinni voru það Berlín og Dublin sem léku með á hátíðinni, sem er orðin árleg sviðslistarveisla sem margir hlakka til. Tvær sýningar á hátíðinni standa vafalítið upp úr hjá áhorfendum en það eru verkin frá Írum. Tvær nýstárlegar danssýningar, Variations on Closer og What They are Instead of, verða líklega einnig í minnum hafðar.

Á seinni sýningunni stynja og rymja tveir ofurfimir dansarar, Angela Schubot og Jared Gardinger, í meira en klukkutíma í öllum þeim stellingum sem hugsast getur að tvær persónur nálgist. Stundum breyttust þau í járnbrautarlest eða byssukjafta en í það heila var þetta of langt og eintóna. Hin sýningin fjallaði um einbeitingu og var engu líkara en að enn væri verið að æfa sig.

Sýning íslenska hópsins Kviss Búmm Bang, Downtown, þar sem unnið er með tækni útvarpsleikhússins en áhorfandinn settur í umhverfi Kringlunnar og leiddur þar milli staða í eins konar ratleik meðan íslenskar vændiskonur segja frá lífi sínu, var frumleg.

Leikkonur ljá þeim raddir sínar og þó svo að frásagnir þeirra hafi verið skuggalegar var nokkuð erfitt að ná tengslum við stúlkurnar og þar með samúð þar sem framsetningin var svo skellibjölluleg, það er töffaraskapurinn í tali þeirra var of ýktur. Vitaskuld þarf að vera töffari til þess að koma sér í gegnum líferni af þessu tagi en það vantaði einhvern viðkvæman streng í frásagnir þeirra.

Hugmyndin er fantagóð og voru áhorfendur eða hlustendur yfirleitt mjög hrifnir. Að ganga með Ipod í eyrum og hlusta á óhugnanlegar örlagasögur sem hefðu getað gerst beint fyrir augum manns í þessu kæruleysislega umhverfi ofurneyslunnar er flott leikhús.

Álfrún Örnólfsdóttir leitaði að sjálfri sér í hugljúfri og magnaðri sýningu sem hún vann ásamt systur sinni Margréti. Verkið ber nafnið Kameljón og byggist það á því að henni finnst í leitinni eins og hún sé að leika aðra eða sé til fyrir aðra eða eins og aðrir vilja. Leikur Álfrúnar og dans bak við og inni í glerstandaleikmynd var heillandi og á köflum nokkuð fyndinn. Hér er tekist á við allar þær klisjur sem konur af hennar kynslóð þurfa að burðast með í sínu daglega amstri í þessu guðsvolaða lífi. Þessi sýning verður sýnd áfram.

Háaleitisbraut er mikil og löng gata. Flest okkar bruna hana á leiðinni til einhverra annarra staða. Að þar búi fjöldi manns, bara eins og í meðalstóru þorpi gerði Friðgeir Einarsson að yrkisefni sínu í fantagóðri heimasýningu þar sem áhorfendur mættu í stofu og hlýddu á rannsóknarverkefnið um Háaleitisbrautina. Verkið kallar hann Blokkina og fjallar um reglur og líf í venjulegri blokk.

Tengsl manna eru engin önnur en þau að rekast á hvert annað á stigaganginum eða bílastæðum. Friðgeir lýsir vel sambandsleysinu og einnig hvernig fólk heldur sér á sínu svæði.

Örlitlu grasfletirnir fyrir framan þessar blokkir sem allar virðast nákvæmlega eins drógu til sín athyglina þegar Friðgeir lýsti grillveislu sem hann bauð til, en enginn kom nema Ragnar vinur hans. Ragnar vinur hans var einnig meðleikari og tæknimaður í sýningunni. Uppákoman tók rúman klukkutíma og fengu áhorfendur að leika með á húsfundi. Friðgeir hefur kómíska áru og skemmtilega nálgun í frásögnum sínum. Sýningin var á ensku enda margir erlendir gestir og þó að ekkert vantaði upp á að hún væri fyndin hefði líklega verið enn skemmtilegra að heyra hana alla á íslensku.

Frá Írlandi mættu tveir leikhópar til hátíðarinnar að þessu sinni. Annar þeirra var með sýningu sína í Listasafninu á Tryggvagötu í sal sem hefði mátt vera stærri því færri komust á þessa sýningu en vildu. Alice býr með Alice og Alice heitir verkið. Tvær fullorðnar konur hafa búið saman í áraraðir.

Ást þeirra er skilyrðislaus en þær eru svo ofurvenjulegar í sínum peysusettum með dempaðar raddir til þess að styggja ekki hvor aðra og umhverfi sitt. Önnur leikkvennanna Amy Conroy skrifar verkið eftir að leikhúsmaður kom að máli við hana og vildi gera einhvers konar verk um þær, en hún hugsaði bara með sér að það væri best að hún gerði það bara sjálf. Þetta er unnið með tækni heimildarleikhússins en þar sem þær eru flinkar og flottar leikkonur verður verkið eins og fágað stofudrama burtséð frá aðferðinni eða hvað er verið að segja.

Báðar heita Alice og báðar elska Alice en eru þó eins ólíkar og nótt og dagur. Frásagnir þeirra af daglega lífinu, þeirra samskiptum og í raun og veru þeirri einangrun sem þær lifa við, var hrífandi. Þær léku upp fyrir sig í aldri en líkamsbeiting og umgjörðin öll, þeirra venjulega stofa með myndir úr utanlandsferðum á veggjum leiddu okkur inn í angist tveggja elskandi einstaklinga sem óttast þann dag þegar annar fellur frá.

Blue Boy hét hitt framlag Íra á hátíðinni. Sagt er frá heimavistarskóla kaþólsku kirkjunnar þar sem líf barna var síður en svo dans á rósum. Leikstjórinn Gary Keegan tengir sjálfan sig við efnið með því að hefja frásögnina á því að sýna okkur leikfangið sitt úr bernsku, nefnilega tommustokk afans sem hann gat breytt í hljóðfæri, dýr, byssur og sjónvarp. Að leika sér með þennan tommustokk var nánast guðlast því afi hans, sem var líkkistusmiður, notaði hann til þess að mæla lengd hinna dánu áður en hann smíðaði utan um þá.

Leikið var fyrir innan örþunnt tjald, sem jafnframt var hvíta tjaldið með sýningum á myndum úr írskum veruleika og framgang kaþólsku kirkjunnar. Blái drengurinn mun hafa verið barinn í hel í skólanum og gengið aftur. Þetta var stílfærð sýning þar sem leikarar dönsuðu og börðust um með ópersónulegar grímur og leikstjórinn ásamt hljóðfæraleikara sagði söguna. Mögnuð sýning.

Jón Atli og Jón Páll Eyjólfsson fengu áhorfendur til þess að teikna nýtt heimskort í sýningu sinni Map of the World. Minnti gjörningurinn svolítið á hlutverkaspilin og leikina sem tröllriðu öllu á níunda áratugnum. Í fyrra var það leitin að guði sem einkenndi verkin á hátíðinni og nú má segja að það hafi verið þörfin fyrir að staðsetja sig í ákveðnu umhverfi sem hafi verið einkennandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.