Lífið

Borguðu norn fyrir gott veður á brúð­kaups­daginn

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Guðrún Gígja og Hafsteinn Björn giftu sig með stæl í sumar í Háteigskirkju.
Guðrún Gígja og Hafsteinn Björn giftu sig með stæl í sumar í Háteigskirkju. Saga Sig

„Fólk er ekkert að ýkja þegar það segir að þetta sé besti dagur lífs þess, þetta var einhver mesti stemningsdagur sem við höfum upplifað,“ segja hin nýgiftu Guðrún Gígja Sigurðardóttir og Hafsteinn Björn Gunnarsson. Þau eru nýflutt heim frá New York og héldu alvöru Reykjavíkurbrúðkaup í sumar.

Guðrún Gígja er fædd árið 1997 og útskrifaðist í vor lögfræðigráðu úr Columbia háskólanum í New York. Hafsteinn Björn er fæddur 1996 og starfar sem rekstrarstjóri Noona. Blaðamaður ræddi við hjúin um stóra daginn.

Nýgift og stórglæsileg hjón.Saga Sig

Hvenær og hvernig trúlofuðust þið?

Við trúlofuðum okkur á veitingastaðnum Hosiló í apríl 2022. Við vorum svo gott sem ein inni á staðnum og vorum að eiga svo skemmtilegt og fallegt kvöld, að fagna fimm ára sambandsafmæli.

Við vorum að tala um framtíðina okkar saman og Hafsteinn tók ákvörðun á staðnum að biðja mín á þessu fallega augnabliki. Svo fórum við saman og völdum okkur hringa. Ekki kannski hefðbundið amerískt bónorð en ótrúlega einlæg stund sem var mjög í okkar anda.

Parið trúlofaði sig við einlæga og fallega kvöldstund algjörlega í þeirra anda.Saga Sig

Hvað voruð þið búin að vera lengi að skipuleggja stóra daginn?

Við byrjuðum rúmlega ári áður að bóka kirkju, stað fyrir veisluna og pæla í gestalistanum en alvöru undirbúningur byrjaði svo um sjö til átta mánuðum fyrir.

Við fluttum til New York síðasta sumar í eitt ár og vissum að við vildum gifta okkur stuttu eftir heimkomu. Okkur fannst líka svo skemmtileg tilhugsun að ná saman öllu okkar nánasta fólki í heilan dag eftir að hafa verið úti þetta ár.

Það var skemmtilega krefjandi stundum að plana brúðkaupið úr annarri heimsálfu, en foreldrar okkar hjálpuðu okkur við að senda boðskort í póst og annað sem er ekki hægt að gera yfir tölvu.

Hjónin segja það hafa verið skemmtilegra krefjandi að skipuleggja brúðkaup frá annarri heimsálfu.Saga Sig

Hvernig var brúðkaupsdagurinn?

Fólk er ekkert að ýkja þegar það segir að þetta sé besti dagur lífs þess, þetta var einhver mesti stemningsdagur sem við höfum upplifað. Það er dýrmætt að verða hjón og fá að fagna því með öllum ástvinum sínum.

Við vöknuðum um morguninn, fengum okkur morgunmat og kaffi og gáfum hvort öðru snemmbúna morgungjöf.

Í framhaldi fór ég heim til foreldra minna þar sem mamma var búin að útbúa morgunmat fyrir okkur konurnar sem vorum að hafa okkur til saman. Hafsteinn fór í sund með fullt af strákum og gerði sig svo til heima hjá okkur með pabba sínum og bróður.

Ég gerði mig til með mömmu, tengdamömmu, mágkonum, svilkonu og bestu vinkonum mínum. Ingunn Sigurðardóttir kom og farðaði mig svo ótrúlega vel og gerði hárið mitt. Vinkonur mínar hjálpuðu mér að gufa kjólinn og klæða mig í hann. 

Hjónin áttu fullkominn dag.Saga Sig

Þetta var ekkert smá notalegt og ég var miklu slakari en ég hélt ég yrði. Í framhaldi keyrði ég af stað með pabba og bróður mínum, sem var bílstjórinn okkar, á brúðarbílnum. Við brúðhjónin fórum í myndatöku fyrir athöfnina í Þingholtunum og öll fjölskyldan kom svo þangað.

Athöfnin var í Háteigskirkju og séra Sigurður Grétar Helgason gaf okkur saman, en hann kynnti líka foreldra mína þannig það má segja að þetta brúðkaup hefði ekki átt sér stað ef ekki væri fyrir hann. 

Við Hafsteinn höfðum skrifað orð til hvors annars sem presturinn las upp svo fallega í athöfninni. Það var ein af mínum uppáhaldsstundum yfir daginn og ég réð svo illa við tárin að pabbi þurfti alltaf að vera að rétta mér vasaklút. 

Það var gott að hafa hann mér við hlið á þessari stundu.

Vinir okkar sáu um tónlistaratriði, en Magnús Jóhann Ragnarsson spilaði á píanó, bæði forspil, undirleik og svo lagið Ég veit þú kemur. 

Ingibjörg Rut söng lagið Flugvélar með Nýdönsk og Arnar Ingi söng lagið Ástarsæla með Hljómum. Ég fæ gæsahúð bara að hugsa um hvað það var fallegt hjá þeim. Athöfnin í heild var yndisleg og alveg í okkar anda.

Veislan var svo haldin á ítalska veitingastaðnum La Primavera í Marshall húsinu út á Granda. Þau sáu um mat og drykk, og eru fagmenn fram í fingurgóma. Það var svo góð orka í öllum gestunum og það var stuð langt fram eftir nóttu.

Veislan fór fram í Marshall húsinu og það var stuð fram eftir nóttu.Saga Sig

Svo má ekki gleyma því að veðrið var fullkomið, svo bjart og milt. 

Spáin leit nú ekkert allt of vel út um tíma en ég borgaði norn á Etsy til að gera veðurgaldra fyrir Reykjavík þennan daginn. Hvort henni sé að þakka eða ekki verður að liggja á milli hluta en veðrið var frábært.

Saga Sigurðardóttir tók myndir af okkur yfir daginn og ég gæti ekki mælt meira með, myndirnar eru svo fallegar.

Voruð þið sammála í skipulaginu?

Já, við vorum bara eins og einn heili. Við ræddum snemma stóru línurnar, eins og hvernig stemningu við vildum hafa og hversu stórt brúðkaupið ætti að vera.

Við vildum halda alvöru Reykjavíkur brúðkaup með áherslu á góðan mat, drykki og skemmtun. Við fengum það og miklu meira á La Primavera. Staðurinn er við höfnina og með einu fallegasta útsýni bæjarins yfir miðbæ Reykjavíkur, Hörpu og Hallgrímskirkju.

Maturinn var ótrúlegur, og við hvetjum alla til að leggja leið sína þangað í hádegis- eða kvöldverð enda fáiði ekki betri ítalskan mat á Íslandi þó lengra væri leitað. 

Við ákváðum að hafa standandi borðhald til að veislan gæti flætt sem best sem endaði á að vera ein besta ákvörðunin, því fólk úr ólíkum áttum kynntist og gestirnir blönduðust vel saman.

Dagurinn flæddi vel og stressið var lítið á brúðkaupsdaginn. Saga Sig

Allt flæddi þægilega og við vorum mjög samstillt. Við vorum líka óhrædd við að skipta með okkur ábyrgð og treystum hvort öðru fullkomlega fyrir því, ég t.d. sá um pappírsefnið og Hafsteinn hljóðkerfi og þess háttar. 

Við nutum þess í botn að skipuleggja daginn og það var stór partur af upplifuninni.

Hvaðan sóttuð þið innblástur?

Við erum í fyrra fallinu af okkar vinum að gifta okkur, en höfum farið í tvö gullfalleg brúðkaup hjá vinafólki okkar sem gaf okkur hugmyndir.

Ég skoðaði líka mikið Pinterest, Tiktok og aðra samfélagsmiðla, sem hjálpaði kannski sérstaklega við innblástur fyrir dressin okkar. 

Guðrún Gígja og Hafsteinn Björn lögðu upp úr því að hafa brúðkaupið algjörlega í þeirra anda.Saga Sig

Hafsteinn mælir til dæmis með fyrir brúðguma að skoða Derek Guy á Twitter/X en hann er sérfræðingur í herraklæðnaði. 

Ég sótti mestan innblástur í brúðkaupslúkk Sofiu Richie og Alex Cooper – tímalaus en samt gelló!

Internetið getur samt sett óraunhæfa staðla á þennan dag, þar sem oft er farið all-in í öllu sem tengist deginum, stóru og smáu. 

Við vildum að brúðkaupið yrði í okkar anda og við hugsuðum mikið hvað við vildum raunverulega gera til að freistast ekki að fylgja því sem manni finnst að maður eigi að gera.

Við til dæmis ákváðum að vera ekki með myndavegg, skera ekki brúðartertu og vorum ekki með gestabók. Við vorum með tvo stóra skúlptúrvendi frá 4 Árstíðum, skilti á trönum sem bauð fólk velkomið og mat- og barseðlaskilti, en þess utan vorum við lítið að eyða púðri í skraut.

Hjónin vildu hafa brúðkaupið stílhreint og smart!Aðsend

La Primavera gaf okkur í sjálfu sér mikinn innblástur, enda staður sem skreytir sig sjálfur. Þar eru mörg listaverk eftir íslenska listamenn sem gefur staðnum mikinn karakter og stemningin þar er í senn hátíðleg, elegant og afslöppuð.

Afi minn heitinn Kjartan Guðjónsson var listmálari og hans verk gáfu okkur mikinn innblástur. 

Við notuðum teikningar eftir hann í allt pappírsefni, eins og boðskortin, mat- og barseðil, skiltið og brúðkaupsbæklinginn.

Hvað fannst ykkur mikilvægast?

Það var mikilvægast að fá að eiga þennan dag með öllum ástvinum okkar. Allir gestirnir komu með þvílíka stemningu með sér og svo voru margir nákomnir okkur sem hjálpuðu okkur við að láta daginn verða að veruleika.

Guðrún Gígja og Hafsteinn voru algjörlega afslöppuð yfir daginn og nutu sín í botn.Saga Sig

Við gátum verið fyllilega afslöppuð yfir daginn af því að vinir okkar, foreldrar og systkini hjálpuðu okkur að passa að allt gengi smurt bak við tjöldin. Svo var mikil gæfa hvað allir sem unnu daginn með okkur voru miklir fagmenn og snillingar.

Hvað stendur upp úr?

Það er svo margt hægt að nefna og í raun ekkert eitt sem stendur upp úr, þetta var bara ógleymanlegur dagur. Augnablikið þegar Hafsteinn sá mig í fyrsta sinn er samt ofarlega í huga.

Ég hélt að það yrði hversdagslegra, enda höfðum við sést bara seinast þá um morguninn en þetta endaði á að vera ótrúlega einlæg og tilfinningaþrungin stund. 

Ég get líka ekki sleppt því að nefna ræðurnar og atriðin frá fjölskyldunni okkar og vinum, það var algjör hápunktur.

Hjónin dönsuðu fram á rauða nótt.Saga Sig

Það var líka svo mikil stemning að dansa fyrsta dansinn! Við fórum í danskennslu hjá Denise Yaghi og við æfðum okkur þvílíkt heima. Fyrsti dansinn var stiginn við lagið Fullkomið farartæki með Nýdönsk, og Daníel Ágúst steig svo fram þegar við lukum dansinum og söng lagið til enda.

Sáu einhverjir um veislustjórn og voru skemmtiatriði?

Styrmir Elí vinur okkar var veislustjóri og gerði það fullkomlega. Hann sá um atriði og fjör í veislunni, og hafði fataskipti svona fimm sinnum á meðan kvöldinu stóð, eitt augnablik var hann í smóking og það næsta í 70s vesti – alvöru host!

Það er svo dýrmætt að svona góður vinur okkar hafi séð um veislustjórn, og skemmir ekki fyrir að hann er bæði lærður leikari og stemningsmaður að guðs náð. Fjölskylda okkar og vinir voru svo með frábærar ræður og atriði, sem létu okkur hlæja og tárast til skiptis.

Andri Guðmundsson, vinur og fyrrum kollegi minn, kom eftir desertinn og leiddi fólk í söng á meðan hann spilaði á píanóinu, sem gjörsamlega sló í gegn.

Daníel Ágúst opnaði dansgólfið með GusGus og Nýdönsk lögum, þvílík stjarna! DJ Snorri Ástráðs sá svo til þess að halda uppi fjörinu á dansgólfinu fram á nótt.

Það er óhætt að segja að inniskórnir sem við vorum með fyrir þreytta fætur kláruðust alveg. Við Hafsteinn dönsuðum sjálf ekkert eðlilega mikið, ég var komin með krampa í fæturna undir lokin!

Var eitthvað sem kom ykkur á óvart?

Það sem stendur hvað helst upp úr gerðist reyndar nokkru fyrir brúðkaupið. Í vor bjuggum við Hafsteinn enn í New York og einhvern seinnipartinn vorum við stödd í Gramercy Park hverfinu að rölta um.

Við höfðum lítið verið í þessu hverfi og kíktum inn í vintage búð sem við höfðum aldrei séð áður. Þar vorum við að gramsa í fötum og ég fór svo að skoða stóra stæðu af gömlum myndum í römmum, ábyggilega um 200 myndir. Önnur myndin sem ég skoðaði reyndist vera ljósmynd af Háteigskirkju.

Af öllum búðum í New York, af öllum myndunum í búðinni og af öllum kirkjum í heiminum var þarna mynd af íslensku kirkjunni sem við vorum að fara að gifta okkur í eftir þrjá mánuði! Þetta var einhver ótrúlegasta tilviljun sem við höfum upplifað.

Líklega var þarna á ferðinni einhver verndarengill að senda okkur skilaboð um að hjónabandið okkar væri þeim að skapi. Við drösluðum myndinni að sjálfsögðu heim til Íslands og hún hangir núna uppi á vegg heima hjá okkur.

Myndin niðri fyrir miðju hangir upp á vegg hjá hjónunum.Aðsend

Svo tala mörg brúðhjón um að það komi á óvart hvað dagurinn líði hratt og það er sko ekkert grín! En við nutum hans súper vel og vorum langt fram á nótt að dansa. Svo allt í einu er þetta bara bara búið en maður lifir á þessum degi svo lengi.

Hvað voru margir gestir?

Um það bil 140 gestir.

Hvernig gekk að velja kjólinn? 

Það gekk mjög vel. Ég fór bæði í mátun í Loforð og svo úti í New York en endaði á að velja kjól í Loforð og sömuleiðis slör og trefil. Skónna keypti ég úti. 

Stelpurnar þar eru snillingar í að setja mann í kjóla sem eru aðeins út fyrir þægindarammann og þannig finnur maður betur hvað maður fílar og hvað ekki.

Stórglæsileg brúður! Saga Sig

Ég var upphaflega með allt aðra hugmynd um hvernig kjól ég yrði í! Ég vissi samt að ég vildi mjög látlausan og tímalausan kjól, en hélt ég yrði ekki í jafn strúktúreruðum kjól og ég valdi. 

Kjóllinn sem ég endaði á að velja hafi verið með þeim fyrstu sem ég mátaði, og mér leið vel í honum þannig ég var ekkert að ofhugsa það of mikið og festi hann.

Ég var harðákveðin í að vera í kjólnum allt kvöldið, en ekki skipta í partíkjól, því ég vildi geta notið hans sem lengst. Kjóllinn fékk alveg að finna fyrir því og faldurinn er vel skítugur eftir að hafa dansað á honum allt kvöldið.

Ertu með eitthvað gullið ráð fyrir verðandi hjón sem eru að skipuleggja brúðkaup?

Þetta á ekki að vera fullkomið, þetta á bara að vera gaman! 
Hjónin umkringd þeirra besta fólki.Saga Sig

Það er mikilvægt að vera í hæfilegu kæruleysi í skipulaginu, því það er enginn að fara að muna eftir hvort öll smáatriði hafi gengið upp.

Við undirbjuggum daginn vel, sérstaklega vikurnar fyrir, en kemur að brúðkaupsdeginum sjálfum er mikilvægt að sleppa tökunum og vera í núinu. 

Orkan í brúðhjónunum settur allan tóninn fyrir daginn og það er svo mikilvægt að hafa gaman. Það eru fáir dagar á lífsleiðinni þar sem allt manns nánasta fólk kemur saman að fagna ástinni og það er mikilvægt að njóta þess.

Ætlið þið í brúðkaupsferð?

Við erum ekkert farin að skipuleggja það en það er svona í kortunum að plana einhverja skemmtilega ferð saman. Daginn eftir brúðkaupið fórum við upp í bústað í nokkra daga í algjöra slökun sem var yndislegt.

Guðrún Gígja og Hafsteinn Björn segja skemmtilegt að eiga brúðkaupsferðina inni. Saga Sig

Núna ætlum við bara að njóta þess að koma okkur í rútínu og vera heima, en það verður gaman að eiga brúðkaupsferð inni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.