Menning

Kynorkan allt­um­lykjandi hjá ó­léttu óperusöngkonunni

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Ólétta óperusöngkonan Kristín Sveinsdóttir ræddi við blaðamann um tónlistina og lífið.
Ólétta óperusöngkonan Kristín Sveinsdóttir ræddi við blaðamann um tónlistina og lífið. Vísir/Anton Brink

„Tónlistin er svo seiðandi og það er svo sterk kynorka í þessu sem hjálpar held ég án efa í meðgöngunni. Ég held að ég taki þetta með mér alla leið inn á fæðingardeild bara,“ segir hin kasólétta kammeróperusöngkona Kristín Sveinsdóttir, sem er að setja upp útfærslu af sögulegu óperunni Carmen og að fara að eignast barn á allra næstu dögum.

Í starfsnámi við La Scala

Kristín Sveinsdóttir er fædd árið 1991, býr í Kópavogi með eiginmanni sínum Gísla Viðari Eggertssyni og er við það að eignast annað barn sitt.

„Eins og svo margir Íslendingar slysaðist ég í kór og það er í raun upphafið af þessu. 

Sex ára gömul byrjaði ég í kór með bestu vinkonu minni og það var bara svo gaman að ég hef aldrei hætt að syngja. Þetta var og er bara það skemmtilegasta sem ég gerði.“

Kristín hefur komið víða við í heimi tónlistarinnar, lærði í Söngskóla Reykjavíkur, fór í framhaldsnám til Vínarborgar og þaðan í starfsnám til Mílanó við hina virtu La Scala óperu.

„Ég flyt svo heim árið 2020 á sama tíma og nokkrir bestu vinir mínir frá árunum í Vín, Jóna G. Kolbrúnardóttir, Eggert Reginn Kjartansson og Unnsteinn Árnason. 

Við vorum öll að flytja til Íslands á sama tíma og fundum öll sterkt fyrir því hvað okkur langaði að búa hér og efla óperulífið á Íslandi.“

Jóna G. Kolbrúnardóttir, Unnsteinn Árnason, Kristín Sveinsdóttir og Eggert Reginn Kjartansson. Sandijs Ruluks

Vildu gera óperuna aðgengilegri

Hún segir að í forgrunni hafi verið að gera það sem jafnan teldist hámenningu aðgengilegri fyrir almenning.

„Okkur langaði að fleiri gætu tengt við óperu og stofnuðum því Kammeróperuna. Það voru fleiri í sambærilegum hugleiðingum sem er svo skemmtilegt og það er rosalega mikið búið að gerast í grasrótinni undanfarin ár. 

Við höfum verið að færa óperuna aðeins niður, nær áhorfendum, og það svínvirkar. Það eru stöðugt fleiri að upplifa óperu og kynnast nýrri menningu.“

Kammeróperan setur hina sögulegu sýningu Carmen á svið í febrúar næstkomandi í Tjarnarbíói og er undirbúningur farinn á fullt.

Kristín er full tilhlökkunar að frumsýna Carmen. Sandijs Ruluks

„Við erum að vinna þetta með Adolf Smára Unnarsyni leikstjóra og hann var einmitt að skila inn splunkunýrri þýðingu á Carmen þannig þetta verður ferskt og skemmtilegt. 

Andri Unnarsson er búningahönnuður en hann vann líka með okkur við Brúðkaup Fígarós og fékk Grímutilnefningu fyrir. Fjölnir Gíslason er ljósahönnuður, við erum að ráða inn tónlistarfólk og aðra í listræna teyminu og þetta verður bara algjör veisla fyrir skynfærin.

Þetta er líka svo epísk ópera, þrátt fyrir að það hafi ekki allir séð Carmen held ég að flest allir hafi heyrt tónlistina úr henni. Þetta er bara stórsmellur á eftir stórsmelli, eiginlega fáránlegt hvað það er mikið af hitturum í þessu og þetta er auðvitað ein vinsælasta og mest flutta óperan í dag.“

Magnað að undirbúa sig kasólétt

Kristín fer sjálf með hlutverk Carmen og er þetta hennar stærsta óperuhlutverk til þessa.

„Þetta er auðvitað algjört draumahlutverk og það hefur verið frekar magnað að vera svona kasólétt að undirbúa sig fyrir þetta.“

Hún segist gríðarlega þakklát fyrir það að geta sungið og notið sín á meðgöngunni.

„Þetta er svo mikið happ og glapp, líkaminn er að fara í gegnum svo miklar breytingar og hormónin eru á fullu, maður veit aldrei almennilega hvað maður er að fara út í.

Ég hef verið ótrúlega heppin í bæði skiptin, auðvitað hafa verið miklar breytingar en það er auðvelt að vinna með það. Ég hef getað verið virk og náð að syngja mikið síðustu mánuði sem gerir rosalega mikið fyrir mig.“

Kristín Sveinsdóttir lifir og hrærist í heimi tónlistarinnar.Vísir/Anton Brink

Samhliða óperunni er Kristín að kenna í Tónskóla Sigursveins.

„Það er mjög gefandi og gaman. Svo tók ég nýlega upp plötu með Ásláki Ingvarssyni og hef sungið á fullt af tónleikum síðastliðna mánuði.

Ég var orðin ólett þegar við settum upp Brúðkaup Fígarós í vetur en þar lék ég unglingsstrák, út af röddinni minni leik ég oft unga karlmenn í óperum

Mér finnst virkilega gaman og gefandi að fá að stíga út úr því og taka inn kven- og kynorkuna í hlutverki Carmen. 

Tónlistin er svo seiðandi og það er svo sterk kynorka í þessu sem hjálpar held ég án efa í meðgöngunni. Ég held að ég taki þetta með mér alla leið inn á fæðingardeild bara. 

Carmen er sterkur kvenmaður með sterka kynorku og ég held að þessi energía muni bara koma þessu barni í heiminn.“

Mikilvægt að passa vel upp á andlegu hliðina

Hún segist full tilhlökkunar að stíga inn í fæðingarorlof samhliða því að vera að fara í stífan undirbúning fyrir Carmen.

„Frí er auðvitað svolítið abstrakt pæling hjá listamönnum og það er aldrei alveg frí en það er örugglega ástæðan fyrir því að maður er í þessu yfir höfuð, því maður hefur ástríðu fyrir vinnunni sinni. 

Ég er rosalega virk, auðvitað innan ákveðinna marka en mér finnst rosalega gott að sinna þessu samhliða barninu, því það er rosalega falleg sjálfsvinna líka að vera að syngja og læra texta.

Stór hluti af því að vera söngvari er að hugsa vel um sig bæði andlega og líkamlega. Það hjálpar svo mikið að vera í góðu jafnvægi þegar maður stígur á svið og berskjaldar sig. Á sama tíma er auðvitað svo heilandi að syngja. 

Ég hef alveg gengið í gegnum erfið tímabil í lífinu þar sem maður finnur að það er skrýtið og krefjandi að stíga á svið en tónlistin hjálpar. Söngur hjálpar manni alltaf í gegnum lífsins ólgusjó en því betur sem manni líður því skemmtilegra er að syngja. Þannig mér finnst mikilvægt að leggja áherslu á mikilvægi þess að hugsa vel um sig í starfinu,“ segir Kristín og brosir.

Enginn ótti lengur

Þetta er svo sannarlega ekki hennar fyrsta ródeó og segir hún að sviðsskrekkur hrjái hana nánast aldrei í dag.

„Ég er eiginlega búin að sigrast á því, ég var svo rosalega feimin sem barn og ég gleymi því aldrei þegar ég átti fyrst að fara í stigspróf á blokkflautu. Ég bara gat það ekki, hágrét og skólastjórinn þurfti bókstaflega að styðja mig inn í prófið,“ segir Kristín hlæjandi og bætir við að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þá.

Kristín Sveinsdóttir á von á barni á næstu dögum og stefnir á að blasta óperunni Carmen í botn við fæðingu. Vísir/Anton Brink

„Það er líka svo heilbrigt og fallegt vinnuumhverfi hér á Íslandi og ég nýt þess í botn að koma fram. Það er auðvitað alltaf mjög gott að vera með smá fiðrildi í maganum því maður vill gera vel, mér finnst það bara nýtast sem ofurkraftur. En það er enginn ótti lengur sem er rosalega gott.“

Carmen verður frumsýnd 13. febrúar næstkomandi og má nálgast nánari upplýsingar hér

„Kammeróperan er á fullu í vetur, við verðum meðal annars með barnasýninguna Hans og Grétu sem byrjar aftur í sýningu 28. september en sýningin fékk tilnefningu sem barnasýning ársins hjá Grímunni. Það er svo gefandi og skemmtilegt fyrir krakka að upplifa óperuna,“ segir Kristín brosandi að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.