Innlent

Sex stöðvaðir á Keflavíkurflugvelli á fimm dögum

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Í Leifsstöð.
Í Leifsstöð.
Sex einstaklingar hafa verið stöðvaðir við landamæraeftirlit lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli undanfarna fimm daga með fölsuð skilríki eða án skilríkja við komu til landsins. Hluti þessa fólk hefur sótt um hæli hér á landi en aðrir hafa þegar hafið afplánun dóms vegna skjalafals.

Einstaklingarnir sex eru flestir í yngri kantinum og bæði karlar og konur samkvæmt upplýsingum frá Jóhannesi Jenssyni yfirmanni rannsóknardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum. Hann segir að um óvenjulegan fjölda sé að ræða á svo stuttum tíma en það geti verið tilviljun. Ekki fengust upplýsingar um frá hvaða löndum þessir sex einstaklingar eru en þeir voru stöðvaðir við hefðbundið landamæraeftirlit lögreglu við komu hingað til lands frá því á fimmtudag. Sumir þeirra voru með fölsuð skilríki á meðan aðrir höfðu engin skilríki til að framvísa.

Jóhannes segir að fólkið sé enn hér á landi og sumir enn í vörslu lögreglunnar á Suðurnesjum. Hluti hópsins hefur óskað eftir hæli hér á landi en aðrir hafa fengið sín mál afgreidd fyrir dómara og hafið afplánun. Hann segir að verið sé að rannsaka tilfelli þessarra einstaklinga en reynt sé að vinna hratt við úrlausn þeirra þar sem fólkið er stöðvað og kyrrsett hér á landi þegar svona mál koma upp.

Þá segir hann að þrátt fyrir að fjöldinn hafi verið svo mikill á síðustu dögum hafi gæsla ekki verið aukin við landamærin á Keflavíkurflugvelli.

Ekki náðist í Kristínu Völundardóttur forstjóra Útlendingastofnunar fyrir hádegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×