Innlent

Skátarnir nota íslenskt timbur á landsmóti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Landsmót skáta að Úlfljótsvatni hefst í kvöld og er fólk þegar mætt á svæðið. Mest er þar núna fjölskyldufólk og erlendir skátar sem eru komnir hingað til lands til þess að vera viðstaddir mótið. Formleg setning landsmótsins er síðan á sunnudag og er gert ráð fyrir að þá muni hundruð eða þúsundir streyma á mótssvæðið.

Mikill undirbúningur hefur farið fram undanfarna daga. Meðal annars hafa skátarnir flutt á svæðið spírur sem skátarnir nota til að byggja ýmiskonar búnað. Má þar nefna hlið, þrautabrautir, þvottasnúrur og svo framvegis.

Bandalag íslanskra skáta samdi að þessu sinni við Skógræktarfélag Kópavogs um að útvega 500 spírur sem notaðar verða á mótsvæðinu. Skógræktarfélagið vinnur nú að grisjun að Fossá í Kjós og í samvinnu við Skógræktarfélag Íslands var svæðið grisjað og hefur Skógræktarfélag Kópavogs nú afhent skátunum þessar skógarafurðir. Að verkefninu komu vinnuflokkar í atvinnuátaksverkefni hjá skógræktarfélaginu sem fengnir vorum með samningum milli Skógræktarfélags Kópavogs, Skógræktarfélags Íslands , Kópavogsbæjar með stuðningi Vinnumálastofnunnar. Timbrið var svo flutt af Skátunum með aðstoð Björgunarfélags Árborgar.

Í tilkynningu frá skátunum segir að þetta sé í fyrsta sinn sem íslenskum skátum gefst kostur á að nýta íslenskt timbur á landsmóti. Það mikið gleðiefni og ber vott um aukna möguleika í nýtingu íslenskra skógarafurða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×