Innlent

Skátar með annað augað á veðurspánni

Fólk er nú farið að týnast að Úlfljótsvatni þar sem Landsmót skáta fer fram. Um 500 manns eru á svæðinu núna en gert er ráð fyrir að um 5.000 manns muni sækja mótið í ár.

Gunnlaugur Bragi Björnsson, upplýsingafulltrúi Landsmóts skáta, segir að skipulagning gangi afar vel. Hann gerir ráð fyrir að mótið eigi eftir að ganga vel en segir skáta þó meðvitaða um veðurspána. Veðurstofa Íslands spáir nú stormi á Suðurlandi.

„Eins og er þá er ágætis veður hjá okkur," segir Gunnlaugur Bragi. „Við fylgjumst auðvitað vel með veðurspánni og höfum verið í sambandi við bæði Veðurstofu sem og Landsbjörg."

Þá segir Gunnlaugur Bragi að landsmótsgestir séu nú að tryggja tjöld sín. Reynist veðurofsinn of mikill munu skipuleggjendur vafalaust grípa til aðgerða.

„Við munum bregðast við ef til þarf," segir Gunnlaugur. „Það er á hreinu. Við erum með þrjá stóra skála sem og aðrar byggingar hér á svæðinu sem fólk getur leitað sér skjóls í ef veðrið verður of slæmt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×