Innlent

Velti bíl við að sveigja frá lömbum

Gissur Sigurðsson skrifar
Fjórir erlendir ferðamenn komust í hann krappann þegar lömb hlupu skyndilega upp á þjóðveginn og í veg fyrir bíl þeirra í Hestfirði við sunnanvert Ísafjarðardjúp í gærkvöldi.

Ökumanninum tókst með naumindum að sveigja hjá lömbunum, en við það missti hann stjórn á bílnum, sem þeyttist út af veginum. En það var lán í óláni að hann hafnaði á réttum kili, en var óökufær eftir byltuna. Fólkið hringdi á lögreglu og fékk síðan far til Ísafjarðar með lögreglunni og björgunarsveitarmönnum frá Súðavík, sem kallaðir voru á vettvang. Þó að lömbin hafi sloppið svona vel í gærkvöldi, þá drápust fimm eða sex lömb og kindur í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum um helgina og hafa nokkrir tugir hlotið þau örlög síðan í vor.

Lausaganga búfjár er heimiluð á Vestfjörðum svo lömbin eru ekki lögbrjótar í þeim skilningi. Að sögn lögreglunnar á ísafirði er þetta vandamál á hverju sumri, en sem betur fer er afar fátítt að slíkt leiði til slysa á fólki, þótt stundum standi það tæpt eins og í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×