Innlent

Sýna Sýrlendingum stuðning

Karen Kjartansdóttir skrifar
Heimir Már Pétursson verður fundarstjóri.
Heimir Már Pétursson verður fundarstjóri.
Tuttugu þúsund manns hafa nú fallið í Sýrlandi, eða tvöþúsund fleiri en búa á Akureyri. Boðað hefur verið til samstöðufundar á Ingólfstorgi í dag með almenningi í Sýrlandi.

Samstöðu- og mótmælafundurinn hefst klukkan þrjú í dag. Til fundarins er boðað vegna þeirra stigmagnandi átaka og borgarastríðs sem geisað hefur í landinu undanfarin misseri.

Á fundinum ætlar Jóhanna Kristjónsdóttir blaðamaður sem þekkir ástand mála í þessum heimshluta betur en flestir aðrir Íslendingar flytja ávarp og tónlistarmennirnir Bjartmar Guðlaugsson og Rúnar Þór flytja nokkur lög við hæfi. Fundarstjóri er Heimir Már Pétursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Hinseginn daga.

"Síðan verður borin upp stutt ályktun með áskorun til stjórnvalda um að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að þrýsta á um friðsamlega lausn mála þarna. Auðvitað er Ísland ekki gerandi þarna en við getum þá lagt okkar litla lóð á vogarskálarnar og sýnt að almenningur hér er að hlusta og þrýstir á," segir Heimir.

Heimir hvetur fólk til að mæta og sýna samstöðu með börnum, konum og körlum í Sýrlandi. Morð á saklausum óbreyttum borgurum fái aðeins þrifist ef umheimurinn standi þögull hjá og leyfi þeim að gerast. Þess vegna sé nauðsynlegt að almenningur um allan heim láti í sér heyra og krefjist þess að morðöldunni linni.

"Núna hafa 20.000 manns fallið í valinn í Sýrlandi, það er 2000 fleiri en búa á Akureyri," segir Heimir til að setja mannfallið í íslenskt samhengi.

Í gærkvöldi bárust fréttir af því að einhverjir hafa sett sig í samband við Jóhönnu Kristjónsdóttur vegna mótmælanna og haft uppi hótanir.

"Það er einstaklega ósmekklegt að vera að Jóhönnu Kristjónsdóttur, sem er ákaflega vönduð kona og hefur ekki lagt annað til málanna en uppbyggilega hluti. Auðvitað eru alltaf einhverjir vanstilltir einstaklingar sem ekki geta setið á sér en þetta er friðsamlegur fundur sem er ætlað að hvetja til friðar í landi sem mikill ófriður ríkir í," segir Heimir.

Þeir sem vilja styðja stríðshrjáð börn í Sýrlandi er svo bent á að fulltrúar Fatímusjóðsins,  taka á móti styrktarframlögum á fundarsvæðinu. Fatímusjóðinn stofnaði Jóhanna Kristjónsdóttir árið 2005 og er honum ætlað að styrkja fátæk börn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×