Innlent

Hundrað áhrifamestu konur landsins

BBI skrifar
Samsett mynd/Arnór
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis og Agnes Sigurðardóttir, nýkjörinn biskup Íslands eru efstar á lista yfir 100 áhrifamestu konur landsins árið 2012. Tímaritið Frjáls Verslun birti listann í nýju tölublaði í síðustu viku.

Í blaðinu birtast nærmyndir af ofangreindum konum þremur. Jóhanna er sögð skörungur mikill en ekki vinsæl að sama skapi, fylgin sér en ekki mannasættir. Ásta Ragnheiður er sögð glaðsinna og metnaðargjörn og farsæll ferill hennar sem plötusnúður rifjaður upp. Agnes er sögð hláturmild og sagt frá óvenjumikilli einingu sem skapaðist í kirkjunni um kjör hennar.

Auk þessara þriggja kvenna tekur blaðið saman nöfn 97 annarra kvenna sem þykja áhrifamiklar í samfélaginu. Þeim er ekki skipað í neina sérstaka röð en birt viðtal við einhverjar þeirra. Meðal annarra má nefna Guðbjörgu Matthíasdóttur útgerðarmann í Vestmannaeyjum og einn eiganda Morgunblaðsins, Unni Gunnarsdóttur, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, Björk Guðmundsdóttur, listakonu, alla kvenráðherrana, Dorrit Moussaieff, forsetafrú, Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, Kristínu Ingólfsdóttur, rektor HÍ og fleiri.

Listinn er birtur með þeim fyrirvara að erfitt sé að meta áhrif fólks og í mörgum tilvikum sé valið reist á huglægu mati blaðamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×