Fótbolti

Rangers hefur leik í fjórðu efstu deild í haust

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rangers verður ekki meðal félaganna í úrvalsdeildinni fyrr en haustið 2015 ef allt gengur félaginu í hag.
Rangers verður ekki meðal félaganna í úrvalsdeildinni fyrr en haustið 2015 ef allt gengur félaginu í hag. Nordicphotos/Getty
Skoski risinn Glasgow Rangers hefur leik í fjórðu efstu deild skosku knattspyrnunnar í haust eftir að tilraunir þeirra til þess að fá að hefja leik í efstu tveimur deildunum runnu út í sandinn.

Rangers, sem tekið var til gjaldþrotaskipta á dögunum, átti reglum samkvæmt að hefja leik í fjórðu deild eins og raunin er orðin. Nýr eigandi félagsins, Charles Green, til þess að mýkja fall félagsins.

Fyrst biðlaði félagið til forráðamanna annarra félaga í úrvalsdeildinni að leyfa því að halda sæti sínu meðal þeirra bestu. Átta af tólf félögum í efstu deild greiddu atkvæði gegn því. Næst reyndi félagið að fá að hefja leik í næstefstu deild en atkvæðagreiðsla um málið hjá félögunum utan efstu deildar féll Rangers ekki í vil.

Fróðlegt verður að fylgjast með gangi mála í skoska boltanum en talið er að úrvalsdeildin verði af miklum fjármunum vegna fjarveru Rangers. Þar spilar inn í að ekkert verður um regluleg einvígi Glasgow félaganna Rangers og Celtic sem hafa verið aðdráttarafl deildarinnar í lengri tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×