Innlent

Sýna pyndingar á Austurvelli

BBI skrifar
Maher Arar
Maher Arar Mynd/Amnesty
Ungliðar í Amnesty international ætla að hafa sýningu á pyndingaraðferðum fyrir framan Alþingishúsið kl 12 á morgun. Þar gefst fólki tækifæri til að læra meira um pyndingar, skrifa undir mótmælabréf og jafnvel reyna á eigin skinni það sem fólk sem sætt hefur pyndingum hefur mátt þola. Tilefni sýningarinnar er alþjóðlegur dagur pyndinga sem var um daginn.

Þessa dagana stendur Amnesty international fyrir undirskriftasöfnun til að þrýsta á bandaríkjaforseta og bandaríska þingið að biðja kanadíska ríkisborgarann Maher Arar opinberlega afsökunar. Arar sætti pyndingum árið 2002 í kjölfar handtökuskipunar bandarískra yfirvalda. Hann sat í fangelsi í Sýrlandi í eitt ár, þar af 10 mánuði í dimmum klefa neðanjarðar. Allan tímann sætti hann pyndingum sem voru að hans sögn svo sársaukafullar að hann gleymdi öllum þeim góðu stundum sem hann hafði notið í lífinu.

Maher Arar var að lokum leystur úr haldi án ákæru. Stjórnvöld í Kanada báðu hann opinberlega afsökunar á sínum þætti í málinu. Það hafa bandarísk stjórnvöld aftur á móti ekki gert. Og nú vilja Amnesty international ýta á eftir þeirri afsökunarbeiðni. Hér er hægt að leggja sitt af mörkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×