Innlent

Vantar leikara til að leika á móti Þorvaldi Davíð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Baldvin Z er leikstjóri myndarinnar.
Baldvin Z er leikstjóri myndarinnar. mynd/ valli.
Vonarstræti er heiti á nýrri mynd sem Baldvin Z leikstýrir. Þetta er önnur kvikmynd hans, en hann leikstýrði jafnframt myndinni Órói. Um er að ræða mikla dramamynd sem verður tekin upp í byrjun næsta árs á Íslandi og víðar. „Ég er að byrja þetta skemmtilega ferli að finna leikara inn í Vonarstræti," segir Baldvin í samtali við Vísi. Hann bætir því við að hann vanti þrjár 5-8 ára gamlar stelpur og eina 13 - 17 ára til að leika í myndinni.

Vonarstræti fjallar um þrjá einstaklinga sem allir standa frammi fyrir stórum ákvörðunum í lífi sínu. Fyrst er að nefna Móra, sem Þorsteinn Bachmann mun leika. Hann er fyllibytta og rithöfundur sem hefur nýlokið við að skrifa sjálfævisögu sína. Hann berst við fortíðardrauga í leit að fyrirgefningu við hinu ófyrirgefanlega. Eik, sem Hera Hilmars leikur, er ung móðir og leikskólakennari sem er flækt inn í vændi til að geta séð fyrir sér og dóttur sinni. Loks er það Sölvi, sem Þorvaldur Davíð Kristjánsson leikur, en hann er frægur fyrrum knattspyrnumaður sem virðist vera á réttri leið í viðskiptaheiminum áður en allt fer til helvítis.

„Móri, Eik og Sölvi eiga öll dætur á svipuðum aldri," segir Baldvin, en það eru einmitt þau hlutverk sem Baldvin er að leita að leikurum í. Þetta eru bara mjög krefjandi og erfið hlutverk fyrir allar þessar stelpur, en það er fyrst og fremst að krakkarnir hafi áhuga á að gera þetta. Það er að segja þau sjálf en ekki bara mamman og pabbinn," segir Baldvin. Hann segir ágætt ef umsækjendur hafi reynslu en fyrst og fremst sé það áhuginn sem skipti máli. „Ef krakkarnir vilja prufa þá hafa þeir engu að tapa nema smá tíma," segir Baldvin.

„Myndin gerist árið 2006 og það spilast alls kyns hlutir inn í þetta sem við könnumst við frá þeim tíma. Það er alveg fjallað um peninga og banka og róna," segir Baldvin. Það sé samt ekki hægt að líta á þetta sem útrásarvíkingamynd.

Myndin er framleidd af Kvikmyndafélagi Íslands, en það er Birgir Örn Steinarsson, betur þekktur sem Biggi í Maus, sem skrifar handritið. Prufurnar fara fram laugardaginn 30.júní milli klukkan 10 og 16 í Bankastræti 11. Áhugasamir mæti á staðinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×