Innlent

Fórnarlambinu á Hlemmi sárnar að vera kallað utangarðsmaður

Manninum sem öryggisvörður á Hlemmi gekk í skrokk á um síðustu helgi sárnar það að vera kallaður utangarðsmaður í netmiðlum. Hann ætlar að kæra öryggisvörðinn fyrir líkamsárás og fara í skaðabótamál gegn Strætó.bs.

Maðurinn sem hér um ræðir heitir Gunnlaugur Jóhann Friðgeirsson. Hann segir í samtali við Fréttastofu að hann hafi verið að koma úr vinnu með strætó á Hlemm þegar árásin átti sér stað. Hann býr þar að auki í eigin húsnæði og fellur því alls ekki undir það að vera utangarðsmaður.

Gunnlaugur segir að þegar hann kom á Hlemm hafi hann hitt gamla vinkonu sína sem sagði farir sínar ekki sléttar af samskiptum við þennan öryggisvörð. Sá hafi tuskað hana þannig til að falskur gómur hrundi úr munni hennar. Eftir það hafi öryggisvörðurinn traðkað á gómnum þannig að hann eyðilagðist.

Gunnlaugur segir að hann hafi ákveðið að ræða það mál við öryggisvörðinn með þeim afleiðingum að öryggisvörðurinn gekk einnig í skrokk á honum.

Gunnlaugur segir að hann hafi haft samband við lögfræðing um að kæra öryggisvörðinn fyrir líkamsárás og að fara í skaðabótamál við Strætó.bs enda beri félagið ábyrgð á starfsmönnum sínum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.