Innlent

Segir Íslendinga þurfa að undirbúa sig undir hrun evrunnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill að Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, upplýsi um það hvað gert hafi verið til að undirbúa Ísland undir hrun evrunnar. Sagði Illugi í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag að veruleg hætta væri á að Grikkir myndu þurfa að yfirgefa evrusamstarfið.

Illugi vildi vita hvort ríkisstjórn Íslands hefði með formlegum hætti hafið formlegan undirbúning undir það og frekara hrun evrunnar. Hann spurði hvort settur hefði verið á laggirnar einhver viðbragðsáætlun eða undirbúningshópur á vegum ríkisstjórnarinnar eða hvort málið hafi verið tekið fyrir með fomlegum hætti á dagskrá ríkisstjórnarinnar.

„Hér er um að ræða helstu viðskiptalönd Íslendinga sem gætu lent í gríðarlegum efnahagslegum þrengingum," segir Illugi. „Hvort sem um er að ræða sjávarútveginn eða aðrar atvinnugreinar eins og ferðaþjónustuna þá er ljóst að hrun evrunnar myndi hafa gríðarleg áhrif á efnahag okkar Íslendinga," sagði Illugi.

Steingrímur svaraði því til að vel væri fylgst með þróun mála í Evrópu. Almennt væri talið að það væri hægt að ráða við það þótt aðstæður í Grikklandi yrðu áfram erfiðar. Verra væri ef vandræðin myndu breiðast út. „Þetta hefur verið rætt í ráðherranefnd um efnahagsmál, í nefnd um fjármálastöðugleika og í ríkisstjórn hefur verið farið yfir það hvaða aðstæður gætu komið upp," sagði Steingrimur.

Hann sagði að það væri engin leið að sjá fyrir hversu víðtæk áhrifin yrðu ef staðan myndi halda áfram að versna í evrópu en þar væru mikilvægir markaðir fyrir ákveðnar framleiðsluvörur umfram aðrar. Almennt hefði Ísland þó verið í miklu skjóli og ástandið í Evrópu hingað til ekki haft mikil áhrif á útflutning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×