Innlent

Óvæntur glaðningur fylgir íslenska laginu í Eurovision

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Frá æfingum í tónleikahöllinni í Bakú.
Frá æfingum í tónleikahöllinni í Bakú. Mynd/Andres Putting (EBU)
Evrópubúar mega búast við óvæntum og hjartnæmum glaðningi frá íslenska Eurovision-hópnum sem stígur á svið í Bakú eftir stutta stund. Fréttamaður ræddi við Jónsa sem var á leið í tónleikahöllina fyrir stuttu.

Átján lönd taka þátt í fyrri undankeppni Eurovision í kvöld og tíu komast áfram í aðalkeppnina sem fer fram á laugardaginn. Íslenski hópurinn er annar á svið en hann æfði atriðið sitt á lokaæfingu í dag. Engir áhorfendur fengu að hlýða á flutninginn í það skiptið en annað var upp á teningnum á dómararennslinu í gær.

„Við fundum fyrir því að það var fylgi sem íslenska atriði hafði hjá þessum aðdáendum," segir Jónsi. „Þetta er náttúrulega svolítið sérstakur hópur og hafa kannski sérstakar skoðanir en við vonum að það hafi eitthvað að segja að þeim finnist atriðið okkar vera gott."

Jónsi segir hópinn ekki ætla að koma með óvæntar sprengjur í kvöld.

„Þetta atriði, þetta lag og þessi saga sem við segjum með laginu er löngu skrifuð og okkur finnst lítil ástæða til að breyta út frá því. Kannski kemur eitthvað örlítið í blálokin sem gleður hjartað en ef það er frátalið er þetta nú svona nokkurn veginn jafn fallegt og í Hörpunni, því okkur fannst svolítið vænt um þá stund," segir Jónsi.

Jónsi þorir ekki að segja til hvort íslenska framlagið komist upp úr riðlinum en.

„Okkur langar svo sannarlega að komast upp núna og það skal bara alveg vera viðurkennt fyrir öllum að við erum hérna til að stefna að sigri eins og öll hin löndin," segir Jónsi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×