Innlent

Unnu sem verktakar fyrir sérstakan saksóknara

Magnús Halldórsson skrifar
Tveir lögreglumenn hafa verið kærðir til ríkissaksóknara fyrir brot á þagnarskyldu í starfi fyrir embætti sérstaks saksóknara. Málið gæti skaðað rannsóknir mála sem mennirnir tveir komu að, en þær tengdust fjárfestingafélaginu Milestone.

Embætti sérstaks saksóknara hefur verið með nokkur mál er tengjast starfsemi fjárfestingafélagsins Milestone til rannsóknar. Lögreglumennirnir tveir, sem kærðir hafa verið fyrir brot á þagnarskyldu, létu formlega af störfum um síðustu áramót.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að tíminn muni leiða það í ljóst hvort rannsóknir, sem mennirnir komu að, muni skaðast þannig að þær geti ekki leitt til ákæru.

Mennirnir tveir hófu störf árið 2009 fram að síðustu áramótum, þegar þeir hófu störf sem sjálfstæðir rannsakendur og voru verktakar hjá embætti sérstaks saksóknara. Meðal annars unnu þeir að öflun upplýsinga og greininga um starfsemi Milestone, en þrotabú þess hefur meðal annars á grundvelli vinnu þeirra höfðað riftunarmál fyrir dómi.

Samkvæmt heimildum fréttastofu íhuga verjendur þeirra sem tengjast rannsóknunum sem mennirnir tveir komu að, að krefjast þess að rannsóknum verði hætt þar sem augljóst sé að þær séu ekki unnar í samræmi við lög og reglur. Meðal þeirra sem rannsóknir hafa beinst að er Karl Wernersson, sem fyrir fall Milestone var aðal eigandi félagsins.

Ólafur Þór segir málið óhjákvæmilega skaða orðstír embættisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×