Innlent

Krefjast þingrofs og kosninga á mismunandi forsendum

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
„Þetta hefur ekkert með stjórnmálaflokka að gera," segir Ásta Hafberg, en hún talar fyrir hönd aðgerðarhóps sem stendur að baki undirskriftarsöfnun þar sem farið er fram á þingrof og að kosið verði til Alþingis sem fyrst.

Að sögn Ástu eru engin samtök eða stjórnmálaflokkar sem koma að söfnuninni. Hópurinn sé skipaður fólki úr mismunandi stigum samfélagsins. „Sjálf hef ég lengi unnið í grasrótinni, margir koma úr þeirri átt á meðan aðrir koma frá öðrum stöðum."

Aðspurð segir Ásta að söfnunin sé ekki viðbragð við einhverju einu máli. „Það eru mismunandi forsendur að baki," segir Ásta. „Sumir eru illir yfir því að ekkert uppgjör hafi átt sér stað í kjölfar hrunsins, aðrir eru ósáttir með að heimili landsins séu látin sitja á hakanum og enn aðrir vilja mótmæla niðurskurði og skattahækkunum."

Undirskriftarsöfnunin hófst fyrr í dag og segir Ásta að hún hafi farið vel af stað. Nú þegar hafa rúmlega 1.000 undirskriftir borist.

„Fólk skrifar undir á sínum eigin forsendum," segir Ásta að lokum. „Þetta hefur ekkert með stjórnmálaflokka að gera."

Hægt er að nálgast söfnunina á vefnum Kjósendur.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×