Innlent

Segir fráleitt að stjórnarformaður kanni greiðslugetu lántakenda

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Frá aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Frá vinstri Ragnar Z. og Jón Þorsteinn, ásamt Reyni Karlssyni, verjanda sínum.
Frá aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Frá vinstri Ragnar Z. og Jón Þorsteinn, ásamt Reyni Karlssyni, verjanda sínum.
„Það er ósannað og styðst ekki við gögn að ákærði Jón hafi tekið ákvörðun um lánveitinguna. Hann tók hins vegar þátt í afgreiðslu málsins á stjórnarfundi 19. desember 2008," sagði Reynir Karlsson, verjandi Jóns Þorsteins Jónssonar í málflutningsræðu sinni fyrir Hæstarétti.

Þá gagnrýndi Reynir niðurstöðu héraðsdóms í málinu, líka meirihlutans sem vildi sýkna Jón Þorstein, en Reynir sagði að hvorki meirihluti né minnihluti Héraðsdóms Reykjavíkur virtist hafa gefið því gaum að Jón Þorsteinn hafi ekki haft neinu hlutverki að gegna við mat á stöðu lántakenda þegar lánveitingar væru annars vegar. Reynir sagði jafnframt að Jón Þorsteinn hafi vikið af fundi stjórnar þegar fyrra lánið, sem ákært er fyrir í málinu, hafi verið afgreitt í október 2008.

Exeter Holding var eignalaust félag í eigu Ágústs Sindra Karlssonar sem fékk samtals 1,1 milljarð króna í tveimur hlutum að láni hjá Byr í október og desember 2008 til að kaupa verðlítil stofnfjárbréf eftir hrun af MP banka. Sakborningar í málinu voru ákærðir fyrir umboðssvik. Fyrir að hafa misnotað stöðu sína hjá Byr og þannig skapað fjártjónshættu fyrir sparisjóðinn.

„Dettur einhverjum það í hug að Monika Caneman (stjórnarformaður Arion banka innsk.blm) eða Friðrik Sophusson stjórnarformaður Íslandsbanka kanni greiðslugetu lántakenda hjá þessum bönkum? Auðvitað ekki. Samt sem áður skauta bæði minnihluti og meirihluti yfir þetta og láta eins og þetta sé sjálfsagt mál, að stjórnarformaður eigi að kanna greiðslugetu lántakenda," sagði Reynir um niðurstöðu Héraðsdóms.

Reynir sagði jafnframt að staða Byrs hafi verið sterk þegar fyrri hluti lánsins var afgreiddur. „Þá var sparisjóðurinn bókstaflega að springa úr peningum," sagði Reynir. Hins vegar hafi tíu mánaða uppgjör sýnt miklar afskriftir, en þetta hafi ekki verið sérstakt áhyggjuefni stjórnar. Ekkert hafi bent til þess að sparisjóðurinn væri að fara á hausinn. Fyrst í mars 2009 hafi ársuppgjör legið fyrir.

Reynir sagði að innlán hefðu aukist mikið í Byr eftir hrun. Peningarnir hafi leitað þangað eftir fall bankanna og sú staðreynd hafi sýnt traust almennings á sjóðnum. „Þetta skiptir máli þegar við erum að velta fyrir okkur hvað menn máttu vita," sagði Reynir.


Tengdar fréttir

Vill ómerkja dóm vegna vanhæfis dómara

Sérstakur saksóknari vill að Hæstiréttur ógildi dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í svokölluðu Exeter-máli vegna vanhæfis eins dómarans sem myndaði meirihluta í málinu á neðra dómsstigi. Þetta kom fram í málflutningi fyrir Hæstarétti í morgun.

Málflutningur í Exeter-málinu

Málflutningur í Exetermálinu svonefnda fer fram í dag í Hæstarétti. Málið snýst um meint umboðssvik vegna útlána Byr sparisjóðs til félagsins Exeter Holding. Lánið var notað til þess að kaupa stofnfjárbréf af MP banka og tveimur stjórnarmönnum Byrs á yfirverði.

"Hann hafði ekki heimild til að kasta peningum út um gluggann“

Björn Þorvaldsson saksóknari gagnrýndi dóm meirihluta Héraðsdóms Reykjavíkur í Exeter málinu mikið í málflutningi fyrir Hæstarétti og sagði niðurstöðuna byggja á misskilningi. Björn fór fram á fjögurra og hálfs árs óskilorðsbundið fangelsi yfir tveimur hinna ákærðu í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×