Innlent

Vill ómerkja dóm vegna vanhæfis dómara

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Tveir sakborninga í málinu ásamt verjendum sínum þegar málið var flutt í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Tveir sakborninga í málinu ásamt verjendum sínum þegar málið var flutt í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Sérstakur saksóknari vill að Hæstiréttur ógildi dóm Héraðsdóms í svokölluðu Exeter-máli vegna vanhæfis eins dómarans sem myndaði meirihluta í málinu á neðra dómsstigi. Þetta kom fram í málflutningi í málinu fyrir Hæstarétti í morgun.

Í Exeter-málinu voru þeir Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs, Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs og Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka ákærðir fyrir umboðssvik vegna lánveitinga sparisjóðsins til félagsins Exeter Holding. Peningarnir voru síðan notaðir til að kaupa stofnfjárbréf í sparisjóðnum af MP banka og tveimur stjórnarmönnum í Byr á yfirverði. Bréfin sem keypt voru af MP banka hafði bankinn eignast eftir veðkall á starfsmenn Byrs, m.a Ragnar Z.

Sakborningarnir voru allir sýknaðir í héraðsdómi, en einn dómari skilaði sératkvæði og taldi rétt að sakfella þá Jón Þorstein og Ragnar. Niðurstöðunni var áfrýjað til Hæstaréttar.

Fram kom í máli Björns Þorvaldssonar, saksóknara, fyrir Hæstarétti í morgun að ákæruvaldið liti svo á að fyrir hendi væru aðstæður sem væru til þess fallnar að draga óhlutdrægni Einars Ingimundarsonar í efa, sem var settur dómari í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem hann hafi verið náinn samstarfsmaður eins af vitnunum, Atla Arnar Jónssonar, hjá fyrirtækinu Íslenskum Verðbréfum hf. en Atli hafði stöðu vitnis vegna þess að hann hafði verið framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Byrs þegar lánið til Exeter Holding var veitt.

Af þessari ástæðu fór ákæruvaldið fram á við Hæstarétt að hann ómerkti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur málinu og vísaði málinu aftur þangað.

Eins og fréttastofan hefur áður greint frá gerði embætti sérstaks saksóknara ekki athugasemdir við hæfi Einars Ingimundarsonar á neðra dómsstigi þar sem embættinu var ekki kunnugt um tengsl Einars og vitnisins. Einar mun þó hafa upplýst um tengsl sín við Arngrím Ísberg, héraðsdómara, en þeir tveir mynduðu áðurnefndan meirihluta í málinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×