Innlent

Vill breyta Grímsstöðum í fólkvang

Brjánn Jónasson skrifar
Grímsstaðir á Fjöllum.
Grímsstaðir á Fjöllum. mynd/ slysavarnafélagið landsbjörg
Til stendur að breyta nær öllu því landi sem kínverski fjárfestirinn Huang Nubo vill leigja á Grímsstöðum á Fjöllum í fólkvang. Þetta kemur fram í drögum að samkomulagi við sveitarfélögin á svæðinu, sem undirbúa kaup á 72,19 prósentum jarðarinnar af landeigendum.

Verði svæðið gert að fólkvangi verður almenningi heimilt að nota það til almennrar útivistar, auk þess sem náttúran á svæðinu mun njóta sérstakrar verndar samkvæmt drögum að samkomulagi milli sveitarfélaga og Huangs. Málinu er þó langt frá því lokið.

Í samningsdrögunum kemur fram að allt að 99 prósent af landareigninni verði gerð að fólkvangi eða þjóðgarði, segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunar félags Eyjafjarðar, sem ásamt Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga hefur unnið að undirbúningi málsins fyrir hönd sveitarfélaganna.

Hann segir að á því eina prósenti sem eftir standi komi til með að verða byggingar sem Huang hyggst reisa.

„Með þessum gjörningi, ef af verður, get ég fullyrt að almenningur mun hafa ríkari rétt til umgengni um landið en hann hefur í dag," segir Þorvaldur. „Ef þetta verður lýst fólkvangur hefur almenningur rétt á að ganga þarna um. Það er verið að auka rétt fólks til umgengni á landinu, sem í dag er einkalóð."

Samkvæmt samningsdrögunum munu sveitarfélögin kaupa ríflega 72 prósent landareignarinnar Grímsstaða á Fjöllum. Stærstur hluti þess lands sem ekki stendur til að kaupa, um 25 prósent, er í eigu ríkisins. „Öllum öðrum eigendum býðst að selja sveitarfélögunum á sama verði og þau kaupa þennan hluta á, en þeir þurfa þess ekki," segir Þorvaldur.

Hann segir að þrátt fyrir að ríkið eigi fjórðung landsins geti það ekki í gegnum þann eignarhlut komið í veg fyrir að aðrir eigendur leigi út sinn hluta af landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×