Innlent

Fíkniefni fundust í húsleitum lögreglu

Fíkniefni fundust við húsleitir í þremur íbúðum í fjölbýlishúsi í Reykjavík í gær. Í einni þeirra var að finna um 70 grömm af amfetamíni en þau voru falin í frysti.

Rúmlega fertugur karl var handtekinn í þágu rannsóknarinnar og fluttur í fangageymslu, en í fórum hans fundust til viðbótar nokkur grömm af amfetamíni. Maður tengist Vítisenglum samkvæmt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Í annarri íbúð varð barnshafandi kona á þrítugsaldri á vegi lögreglumanna en hjá henni fundust bæði amfetamín og marijúana og viðurkenndi konan neyslu á því síðarnefnda.

Lögreglan rakst svo á fullkominn ræktunarbúnað í þriðju íbúðinni en hann var húsráðandi, karl á fertugsaldri, nýbúinn að kaupa. Við frekari leit var einnig að finna marijúana í sömu íbúð.

Við aðgerðirnar naut lögreglan aðstoðar fíkniefnaleitarhunds frá tollinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×