Innlent

Landsvirkjun keypti svæði við Urriðafoss sem á að fara í biðflokk

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Landsvirkjun hefur gengið frá kaupum á jörðinni Skálmholtshrauni við Neðri Þjórsá. Kaupin endurspegla þá afstöðu fyrirtækisins að virkjað verði við Urriðafoss, sem er merkilegt því tilllaga um að setja virkjunina í biðflokk bíður nú afgreiðslu þingsins.

Landsvirkjun átti hæsta boð í jörðina Skálmholtshraun á uppboði hjá sýslumanninum á Selfossi í síðustu viku og keypti jörðina á 71 milljón króna.

Um er að ræða jörð skammt frá Neðri Þjórsá, en tillaga liggur fyrir á Alþingi samkvæmt Rammaáætlun að setja viðkomandi jörð í biðflokk en gangi það eftir mun liggja fyrir pólitísk yfirlýsing um að virkja ekki á svæðinu.

Stóra spurningin er því þessi, hvers vegna er Landsvirkjun að kaupa jörð sem ekki stendur til að virkja á?

„Þetta er þannig að vatnsréttindin eru tryggð á þessu svæði en ef það verður ráðist í byggingu Urriðafossvirkjunar þá eru ákveðin réttindi þarna sem við þurfum að hafa tryggð og þetta er einfaldlega liður í því," segir Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst snúa réttindin að stíflugerð á svæðinu.

Þuríður Backman, þingflokksformaður Vinstri grænna, sagði í samtali við fréttastofu að kaupin á Skálmholtshrauni kæmu sér á óvart, en sagðist velta því fyrir sér hvort Landsvirkjun væri að tryggja sér eignarhaldið á jörðinni með einhvers konar framtíðarmöguleika í huga.

Er það ekki afstaða Landsvirkjunar, sem endurspeglast í þessum kaupum, að það séu meiri líkur en minni að það verði virkjað við Urriðafoss? „Við vinnum eftir ákveðinni áætlun. Núna er verið að fjalla um að setja þessa tilteknu virkjun í biðflokk en það er ekki búið að taka neina ákvörðun um það. Á meðan að sú ákvörðun er ekki tekin höldum við áfram að vinna að hagsmunum fyrirtækisins í þessu tilliti," segir Ragna Árnadóttir.

Í umsögn Orkustofnunar um tillöguna sem nú liggur fyrir á þingi um að setja Urriðafossvirkjun í biðflokk segir að tillagan „víki frá faglegum niðurstöðum verkefnisstjórnar um rammáætlun og upphaflegri þingsályktunartillögu."

Ragna segir að fyrirtækið lúti auðvitað vilja þingsins en fyrirtækið hefur fært fyrir því rök að setja eigi Urriðafossvirkjun í nýtingarflokk. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×