Innlent

Tíu sótt um tíu störf sem auglýst voru á Suðurnesjum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Einungis tíu hafa sótt um tíu störf sem voru auglýst á Suðurnesjum í síðustu viku. Atvinnuleysi á svæðinu er það mesta á landinu en eigandi fyrirtækisins sem auglýsti undrast áhugaleysi Suðurnesjamanna.

Fyrirtækið Icesware sem rekur meðal annars saumastofuna Víkurprjón auglýsti eftir tíu starfsmönnum í heilsíðu auglýsingu í Víkurfréttum í síðustu viku en fyrirtækið hyggst opna saumastofu á Suðurnesjum í næsta mánuði.

Í dag voru tíu búnir að senda inn umsókn. Atvinnuleysi á Suðurnesjum mældist tólf komma tvö prósent í marsmánuði sem er það mesta á landinu en tæplega þrettán hundruð manns eru án vinnu á svæðinu.

Eigandi Icesaware segist fyrirfram hafi búist mun fleiri umsóknum en rúmlega hundrað umsóknir bárust þegar fyrirtækið auglýsti eftir lagerstarfsmanni í Garðabæ fyrir skemmstu.

„Ég reiknað með að þessu yrði tekið fegins hendi og það yrðu miklu fleiri umsóknir, ég auglýsti eftir lagerstarfsmanni hjá mér fyrir tveimur mánuðum síðan og það sóttu á annað hundrað um það starf og mér skilst að þarna sé sérstaklega mikið atvinnuleysi meðal kvenna og þetta er sérstaklega hentugt fyrir það, og sem sagt þetta kom mér mjög á óvart," segir Ágúst Þór Eiríksson, eigandi Icewear.

Í auglýsingunni er sérstaklega tekið fram að atvinnulaust fólk hafi forgang.

„Þetta er léttaiðnaður, vinna við að sauma og sníða, þetta er alls ekki erfitt starf að mínu mati," segir Ágúst Þór.

Sæmilega borgað?

„Ég ætla ekki að ræða laun í fjölmiðlum, en já við ætlum að borga töluvert betur en atvinnuleysisbætur, það er alveg á hreinu," segir Ágúst Þór.

Við þetta má bæta að prjónakonur á Suðurnesjum hafa boðið Ágústi þór á fund til þess að kynna störfin sem eru í boði samkvæmt frétt Víkurfrétta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×