Innlent

Þorgerður Katrín vildi verða forstjóri Hörpu - átök í stjórninni

Magnús Halldórsson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, fyrrverandi menntamálaráðherra og fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, fyrrverandi menntamálaráðherra og fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Fjórir umsækjendur um forstjórastöðu tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu komu helst til greina, eftir langt og strangt ferli. Það voru auk Halldórs Guðmundssonar, sem tilkynntur var sem forstjóri 3. maí sl., Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingkona, fyrrverandi menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þórólfur Árnason, verkfræðingur og m.a. fyrrverandi borgarstjóri, og Hrönn Greipsdóttir, fyrrverandi hótelstýra.

Þorgerður staðfesti í samtali við fréttastofu í morgun að hún hefði verið meðal umsækjenda. Hún sagðist hafa mikla trú á Hörpunni og framtíðarmöguleikum hennar, og að hún hefði litið svo á að forstjórastarfið væri einstakt tækifæri, og að hún hefði metið það sem svo að hún hefði verið tilbúin að hætta því starfi sem hún hefði ástríðu fyrir og hefði gefið henni meira en allt annað, það er starfi á vettvangi stjórnmálanna. Hún vildi ekki tjá sig frekar um málið, að svo stöddu.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var tekist á um ráðningu nýs forstjóra innan stjórnar Eignarhaldsfélagsins Portusar, sem á og rekur Hörpuna, en ríki og borg eru eigendur félagsins (Ríki 54%, borg 46%). Umsóknarferlið var einnig nokkuð umfangsmikið en umsækjendur fóru í gegnum hin ýmsu próf og lögðu fram framtíðarsýn fyrir stjórn Portusar og fulltrúa frá Capacent. Meirihluti stjórnar Portusar, það er þrír stjórnarmenn af fimm, vildu ráða Þorgerði Katrínu í starfið að loknu umsóknarferlinu, samkvæmt heimildum fréttastofu, en eftir nokkur átök í stjórninni varð úr að ráða Halldór í starfið.

Í stjórn Portusar sitja Pétur J. Eiríksson, sem er stjórnarformaður, Björn L. Bergsson, Haraldur Flosi Tryggvason, Svanhildur Konráðsdóttir og Þórunn Sigurðardóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×