Innlent

Varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar mætir ekki á fundi

Breki Logason skrifar
Af þeim fjörutíu og tveimur fundum sem haldnir hafa verið í efnahags- og viðskiptanefnd á árinu hefur varaformaður nefndarinnar, Þráinn Bertelsson, mætt á fjóra. Hann mætti síðast á fund þann átjánda janúar.

Þráinn er fulltrúi Vinstri grænna og gegnir varaformennsku í nefndinni sem er skipuð níu öðrum aðalmönnum.

Formaðurinn Helgi Hjörvar hefur verið ansi duglegur að mæta sem og þau Lilja Mósesdóttir, Skúli Helgason og sjálfstæðismennirnir Tryggvi Þór og Guðlaugur Þór.

Birkir Jón hefur lítið látið sjá sig og Magnús Schram hefur verið ansi duglegur að kalla inn varamenn.

Með verstu mætinguna er samt Þráinn Bertelsson sem hefur í sjö skipti beðið einhvern að mæta á fund fyrir sig.

Þráinn mætti ekki á fyrsta fund ársins sem haldinn var 4.janúar en byrjaði árið reyndar ansi vel. Mætti á fjóra næstu fundi, en síðan ekki söguna meir.

Varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur ekki látið sjá sig á fundi síðan 18.janúar.

Í þriðju grein laga um þingfararkaup segir að fyrsti varaformaður fastanefndar fái 10% álag á þingfararkaup.

Ekki náðist í Þráinn í dag, en eftir því sem fréttastofa kemst næst var ákveðið að setja inn annan fulltrúa í nefndina. Þrátt fyrir að búið sé að halda 42 fundi á árinu hefur það ekki enn verið gert.

Magnús Orri Schram segir að eftir að hann varð þingflokksformaður hætti hann í efnahags- og viðskiptanefnd og Magnús Norðdahl tók sæti hans. Hann segir nafna sinn hinsvegar vera varamann Katrínar Júlíusdóttur og geti því ekki orðið aðalmaður fyrir sig í opinberum gögnum. Því sé hann titlaður varamaður í nefndinni en sé í raun aðalmaður í efnahags- og viðskiptanefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×