Innlent

Áætlun um afnám hafta skilar ekki árangri

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Illugi Gunnarsson var málshefjandi á þinginu í dag.
Illugi Gunnarsson var málshefjandi á þinginu í dag.
Áætlun Seðlabankans um afnám gjaldeyrishafta skilar ekki árangri og skaðinn af höftunum fer vaxandi dag frá degi. Þetta sagði Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Illugi var málshefjandi í umræðum um afnám gjaldeyrishafta á Alþingi í dag.

Sem dæmi um skaða sem hlytist af gjaldeyrishöftunum nefndi Illugi skort á fjárfestingum erlendra aðila í hagkerfinu. Einnig væri það vandamál að lífeyrissjóðirnir gætu ekki fjárfest erlendis og dreift þannig áhættu af fjárfestingum sínum. Hann sagði líka að gengi krónunnar myndi halda áfram að gefa eftir smám saman vegna þrýstings og þannig yrði til stanslaus verðbólguþrýstingur sem Seðlabankinn brygðist við með hærri stýrivöxtum. Vaxtahækkanir ykju á vandann. „Allir ríkisstjórnarfundir eiga að byrja og enda á umræðu um það hvernig hægt sé að afnema höftin og forgangsmál ríkisstjórnarinnar hér á Alþingi eiga að snúast um það verkefni fyrst og síðast," sagði Illugi.

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, var til andsvara. Hann sagði að sú áætlun sem gengið hafi verið frá fyrir rúmi ári síðan hafi gengið eftir eins og til var stofnað en viðurkenndi að framkvæmd hefði líklegast dregist af ýmsum ástæðum. Gert hefði verið ráð fyrir að gjaldeyrisútboð og fjárfestingaleið yrðu fremstar síðan kæmi að útgöngugjaldi og frekari skuldabréfaútboðum. „Það er mikilvægt að leggja áherslu á að nýsett lög um gjaldeyrismál, þar sem var markaður skýrari rammi og settur rammi utan um gjaldeyrisviðskipti gömlu bankanna, var mjög mkilvægur áfangi til að hægt væri að stýra útflæði þeirra stóru fjárhæða. Þannig að Seðlabankinn og stjórnvöld geti tryggt að uppgjör gömlu bankanna sem menn hafa farið að horfa á sem þátt þessa máls raski ekki fjármálalegum stöðugleika hér," sagði Steingrímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×