Innlent

Tengsl á milli brennisteinsmengunar frá jarðvarmavirkjunum og astma

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Tengsl eru á milli brennisteinsmengunar frá jarðvarmavirkjunum og astmalyfjanotkunar. Rannsókn sem nýlega var birt í alþjóðlegu vísindatímariti sýnir að fimm til tíu prósent meira er notað af astmalyfjum þegar slík mengun mælist mikil á Reykjavíkursvæðinu. Orkuveitan ætlar að styrkja frekari rannsóknir.

Rannsóknin var unnin hér á landi á nokkurra áratímabili en niðurstöður hennar birtust í vísindatímaritinu Environmental Research fyrr á árinu.

Þær sýna að um tengsl er að ræða á milli brennisteinsmengunar sem kemur frá jarðvaravirkjunum og því hversu mikið af astmalyfjum eru leyst út úr apótekum. Hanne Krage Carlsen doktorsnemi í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands vann rannsóknina. Hún segir að þegar að mikil brennisteinsmengun mælist höfðborgarsvæðinu þá aukist sala á astmalyfjum.

„Munurinn á þessi astmalyfjasölu þetta er upp á kannski fimm prósent kannski tíu prósent á milli verstu daganna og hreinustu daganna," segir Hanne Krage.

Eiríkur Hjálmarsson upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar segir að fundað hafi verið með rannsakendum og farið yfir niðurstöðurnar. Hann segir þetta stórt viðfangsefni í rekstri jarðvarmavirkjana og að fyrirtækið hafi því ákveðið að styrkja frekari rannsóknir á þessum tengslum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×