Innlent

Vinsælasta rúðan í bænum til að brjóta

Boði Logason skrifar
„Það er ekki skemmtilegt að lenda í svona, þetta er leiðindatilfinning," segir Ólafur G. Jósefsson, eigandi GÞ Skartgripir og úr í Bankastrætinu í miðbæ Reykjavíkur. Öflug sprengja var límd utan á rúðu skartgripaverslunarinnar á sjötta tímanum í morgun en hár hvellur heyrðist um nágrennið. Sprengjubrot fundust í allt að 30 metra fjarlægð.

„Ég fékk bara símhringingu frá lögreglunni í morgun," segir Ólafur í samtali við fréttastofu nú í morgun. „Þeir límdu sprengju utan á rúðuna og svo var bara kveikt á þræði og hún sprakk hérna út um allt. Það er allt í glerbrotum," segir hann.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem reynt hefur verið að brjóta rúðuna hjá honum, en hann hefur átt verslunina síðan árið 1978 en hún var stofnuð árið 1925. „Það hefur gerst mjög oft. Ég hugsa að þetta sé ein vinsælasta rúðan í bænum til að brjóta. Hún hefur lent í ýmsu í gegnum tíðina. Ég setti upp öryggisgler fyrir nokkrum árum þannig ég er með góða vörslu."

Rúðan brotnaði ekki alveg í gegn og fóru því sprengjumennirnir á brott eftir að þeir áttuðu sig á því að rúðan brotnaði ekki. Engu var stolið. Ólafur segist vera með öryggismyndavélar og rannsakar nú lögreglan myndskeiðin úr þeim. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu sjást tveir menn á vettvangi. Annar er dökk klæddur en hinn í rauðri hettuúlpu með hvítt í ermunum.

„Sprengjan var svolítið öflug, það var mikill þrýstingur maður sér það á loftinu. Lögreglan rannsakar núna málið og við vonum að þeir finni þá sem voru hér að verki," segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×