Innlent

Saga er fimm milljónasti Norðmaðurinn - en um það er deilt

Hún Saga Jónsdóttir Eldon fæddist klukkan 02:39 aðfaranótt 19. mars á sjúkrahúsi í Noregi. Sjónvarpsstöðin TV2 tók viðtal við nýbakaða foreldra stúlkunnar, ástæðan er sú að Norðmenn eru orðnir fimm milljónir talsins. Og hugsanlega er Saga litla fimm milljónasti Norðmaðurinn.

Það er þó ómögulegt að slá á föstu að Saga sé fimm milljónasti Norðmaðurinn eins og fram kom í viðtali við Guðna Ölversson í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

„Það er útilokað að finna þetta út með 100 prósent nákvæmni. Mér skilst reyndar að það sé líklegra að Norðmaður númer fimm milljón sé einhver sem var að flytja til landsins," sagði Guðni um þennan merka áfanga norsku þjóðarinnar. Fólksfjöldinn í Noregi hefur vaxið hægt síðustu áratugi, en árið 1975 voru fjórar milljónir Norðmanna í landinu.

En eins og útvarpsmennirnir segja sjálfir, þá trúum við því að Saga sé fimm milljónasti einstaklingurinn í Noregi. „Það verður allavega erfitt að afsanna það," bætti Guðni svo við.

Hægt er að hlusta á viðtalið hér þar sem þessi sérkennilega staða er rædd. Norsku umfjöllunina má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×