Innlent

Nýtingarsamningar til 20 ára í nýrri heildarlöggjöf um fiskveiðar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Gerðir verða nýtingarsamningar til 20 ára við kvótaeigendur samkvæmt nýrri heildarlöggjöf um stjórn fiskveiða en undirbúningur þess er á lokametrunum og er stefnt að því að kynna frumvarp á ríkisstjórnarfundi á föstudag. Framkvæmdastjóri LÍÚ segir að ekkert samráð hafi verið haft við útvegsmenn.

Fjórir sérfræðingahópar ráðuneytisins hafa komið að gerð frumvarpsins í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu en um er að ræða nýja heildarlöggjöf um stjórn fiskveiða.

Stærra kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem Jón Bjarnason þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði fram á síðasta ári mætti harðri andstöðu á nær öllum sviðum atvinnulífsins og andstöðu í öllum þingflokkum. Þá kynnti Jón í nóvember sl. drög að frumvarpi sem var þó aldrei lagt fram.

Eftir að Steingrímur J. Sigfússon tók við embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um áramótin hefur verið gerð gangskör í smíði nýs frumvarps og er þessi vinna nú á lokametrunum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu gerir frumvarpið m.a ráð fyrir að gerðir verði nýtingarsamningar til 20 ára við kvótaeigendur gegn árlegu nýtingargjaldi sem þeir munu hafa rétt að endurnýja áður en samningstími er úti.

Í því felst grundvallarbreyting á réttarstöðu útgerðarmanna því í raun er sett tímamark á aflaheimildir. Eðli þeirra breytist í tímabundin afnotaréttindi samkvæmt samningi gegn gjaldi.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir að ráðherra hafi tvívegis fundað með útvegsmönnum á almennum nótum en að öðru leyti hafi engar upplýsingar verið veittar um efni frumvarpsins. Hann segir æskilegt að hafa samráð við atvinnugreinina ef sátt eigi að nást um grundvallarbreytingar á henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×