Innlent

Fær miskabætur vegna rannsóknar á nauðgun - eiginkonan skildi við hann

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur gert Íslenska ríkinu að greiða karlmanni hálfa milljón króna í miskabætur eftir að lögreglan handtók hann í maí árið 2009 þar sem hann var grunaður um að hafa nauðgað gesti skemmtistaðar í Reykjavík. Lögreglan fór því næst fram á að maðurinn sætti gæsluvarðhaldi og samþykkti Héraðsdómur Reykjavíkur kröfu lögreglustjórans um vikulangt varðhald.

Fram kemur í dóminum að strax í fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu, eftir að hann var handtekinn, hafi hann bent á að hann hefði fjarvistarsönnun. Hann hafi verið við vinnu á veitingastaðnum þegar brotið hafi átt að eiga sér stað. Hann hafi bent á að samstarfsmaður hans við dyravörslu á veitingastaðnum, gæti staðfest fjarvistarsönnun hans.

Lögregla tók hinsvegar ekki vitnaskýrslu af vinnufélaganum fyrr en fimm dögum síðar. Þá kom fram að sá handtekni hefði ekki yfirgefið veitingastaðinn fyrr en hann hafi verið handtekinn af lögreglu undir morgun.

Mikið hafi verið að gera og því gátu í mesta lagi hafa liðið fimm til tíu mínútur áður en vinnufélaginn hefði farið að undrast um hinn handtekna í dyravörslunni. Svo segir orðrétt í dómsorði:

„Stefnandi telji að grunur sá sem lögregla hafi beint að honum hafi eingöngu byggst á framburði brotaþola í málinu, eins langt og hann hafi náð, þrátt fyrir að fyrir hafi legið að hún hafi verið mjög ölvuð þessa nótt og að engin sönnunargögn eða skýrslur vitna styddu að stefnandi hefði brotið gegn henni."

Fram kemur í kröfu mannsins að handtaka hans og gæsluvarðhald hafi í kjölfarið haft mikil áhrif á líf mannsins. Hann hafi verið um árabil í hjúskap með konu. Málið hafi orðið þess valdandi að eiginkona hans hafi óskað eftir skilnaði fljótlega eftir að það hafi komið upp. Þá var manninum að auki vikið úr starfi sem dyravörður, en hann hafi lengi haft dyravörslu sem aukastarf til þess að auðvelda framfærslu fjölskyldu sinnar.

Málið gegn manninum var fellt niður tæplega hálfu ári síðar. Maðurinn krafðist tíu milljóna í miskabætur en fékk hálfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×