Innlent

Pétur Kr. Hafstein hættir sem forseti kirkjuþings

Pétur Kr. Hafstein.
Pétur Kr. Hafstein. Mynd/GVA
Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings, hefur af heilsufarsástæðum sagt af sér embætti forseta og jafnframt þingfulltrúastarfi fyrir Suðurprófastsdæmi, 9. kjördæmi kirkjuþings. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þjóðkirkjunni. Pétur lætur jafnframt af öðrum trúnaðarstörfum í þágu þjóðkirkjunnar.

„Fyrsti varaforseti kirkjuþings, Margrét Björnsdóttir, tekur við embætti forseta kirkjuþings uns kosið hefur verið til embættisins að nýju á kirkjuþingi í nóvember næstkomandi," segir ennfremur.

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, þakkar Pétri fyrir ómetanlegt framlag í þágu kirkjunnar og segir hann hafa þjónað kirkju sinni af mikilli trúmennsku og yfirburðaþekkingu. „Hann hefur verið einstaklega traustur samstarfsmaður, ötull og einbeittur forystumaður á tímum mikilla umbreytinga og átaka. Ég bið honum og fjölskyldu hans blessunar Guðs við þessi þáttaskil, að hann megi ná góðum bata, heilsu og kröftum á ný."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×