Innlent

Þjóðverja þyrstir í skrif Ragnars

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ragnar Jónasson er kampakátur yfir viðtökum Myrknættis.
Ragnar Jónasson er kampakátur yfir viðtökum Myrknættis.
Þýski útgáfurisinn Fischer Verlage hefur tryggt sér útgáfuréttinn á íslensku bókinni Myrknætti eftir Ragnar Jónasson, rithöfund. Bókaforlagið gaf líka út Schneebraut, sem var valin ein af fjórum bestu bókum haustsins 2011 af þýsku tímariti.

Ragnar kveðst afar ánægður með gang mála í Þýskalandi. „Viðtökur Snjóblindu í Þýskalandi hafa farið fram úr mínum björtustu vonum og það er mjög ánægjulegt að útgefendurnir hafi ákveðið að tryggja sér réttinn á Myrknætti líka. Siglufjörður kemur nokkuð við sögu í báðum þessum bókum og nú er ég að vinna að þriðju bókinni sem tengist því sögusviði. Allar þessar bækur standa sjálfstætt en mynda einskonar heild sem siglfirsk glæpatrílógía," segir Ragnar.

Ragnar á rætur að rekja til Siglufjarðar og fleiri í hans fjölskyldu hafa gert staðnum skil í ritverkum. „Afi minn og alnafni skrifaði mikið um sögu Siglufjarðar og það er skemmtilegt að feta með þessum hætti í fótspor hans, þótt nálgunin sé mjög ólík," segir Ragnar.

Í vor hefur Ragnari svo boðist að taka þátt í pallborðsumræðum á stórri ráðstefnu glæpasagnahöfunda í Bristol, Crimefest, en þá ráðstefnu sækja að þessu sinni ýmsir stórmeistarar úr greininni, svo sem P.D. James, Fredrick Forsyth og Lee Child. Ragnar og Yrsa Sigurðardóttir verða fulltrúar íslenskra höfunda að þessu sinni en Ragnar tekur þatt i umræðum undir yfirskriftinni Death in a Cold Climate - Scandinavians. „Það verður forvitnilegt að fá að ræða um skandinavískar glæpasögur á ráðstefnunni, og reyna að átta sig á því hvers vegna þessi tegund bóka nýtur vinsælda um allan heim. Ég held að það sé ekki nein einföld skýring á því, en framandi sögusviðið spilar örugglega stórt hlutverk. Áður voru morð í skáldsögum framin á enskum sveitasetrum en núna hefur íslenska sveitin tekin við," segir Ragnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×