Innlent

Tólf fjölskyldur ætla í mál vegna drómasýki eftir svínaflensusprautu

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Mynd / Vilhelm
Að minnsta kosti tólf fjölskyldur áætla að stefna bæði norska ríkinu og bresku lyfjafyrirtæki vegna hugsanlegra tengsla svínaflensubólusetningar og drómasýki í börnum.

Byrjað var að bólusetja fólk við svínaflensu í Noregi haustið tvöþúsund og níu en upp frá því hefur tilfellum drómasýki í ungmennum fjölgað þar í landi. Fjörutíu og fimm norsk börn sem fengu bóluefnið Pandemrix, það sama og var notað hér á landi, hafa verið greind með sýkina og íhuga foreldrar tólf þessara barna að lögsækja norska ríkið og breska lyfjafyrirtækið GlaxoSmithKline en hópurinn hittist á morgun til ákveða framhaldið.

Móðir stúlku sem greindist með sýkina eftir að hafa fengið bóluefnið segir í norskum fjölmiðlum að yfirvöld hafi hvatt foreldra til að láta bólusetja börnin sín og því eigi þau ekki að víkja sér undan ábyrgð í málinu.

Hvorki norsk yfirvöld né lyfjafyrirtækið hafa viljað tjá sig vegna þessa.

Niðurstöður finnskrar rannsóknar staðfestu í lok síðasta árs að tengsl væru á milli bóluefnis við svínaflensu og drómasýki í ungmennum. Þetta hefur þó verið umdeild þrátt fyrir að tilfellum hafi fjölgað umtalsvert í Finnlandi, Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi og Frakklandi svo dæmi séu tekin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×