Innlent

Ríkir Rússar skoða jarðir á Suðurlandi

Erla Hlynsdóttir skrifar
Myndin tengist ekki fréttinni beint.
Myndin tengist ekki fréttinni beint.

Íbúum Reykholts í Biskupstungum brá heldur betur í brún í vikunni þegar þar lenti þyrla á planinu við Bjarnarbúð. Ekki varð undrunin minni þegar í ljós kom á þarna voru á ferð rússneskir í auðmenn í leit að landi til að kaupa.

Sunnlenska fréttablaðið greinir frá málinu á forsíðu í nýjasta tölublaði sínu. Þar segir að í þyrlunni hafi verið fjórir rússneskir auðmenn sem hafi verið á ferð um Ísland í leit að hentugu landsvæði til að festa kaup á. Þeir stoppuðu aðeins í nokkrar mínútur í Reykholti en héldu því næst í Rangárvallasýslu. Daginn eftir lá leið rússanna til Alaska, í sömu erindagjörðum.

Framkvæmdastjóri hjá íslensku ferðaskrifstofunni Luxury Adventures staðfestir í samtali við Sunnlenska að þau hafi skipulagt ferðina. Þess utan vildi hann engar upplýsingar gefa um ferðalangana. Það sama var uppi á teningnum þegar fréttastofa hafði samband í morgun. Engar upplýsingar fengust um rússnesku auðjöfrana.

Ferðin um Ísland var engu að síður hin glæsilegasta. Bílar biðu á öllum áfangastöðum rússanna ef veður skyldi hindra útsýnisflug, eins og reyndar gerðist þegar þeir ætluðu að skoða Gullfoss. Annar bíll beið þeirra síðan við Rangá, og sá þriðji í Reykjavík.

Ekki er vitað hvort Rússarnir höfðu augastað á ákveðnu landi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.