Innlent

Vilja sameina menningastofnanir á Akureyri - Magnús Geir kallaður til

Leikfélag Akureyrar hefur leitað til Magnúsar Geirs Þórðarsonar, leikhússtjóra Borgarleikhússins, í viðleitni við að sameina tímabundið samvinnu milli LA, Borgarleikhússins og Menningarfélagsins Hofs. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Akureyrarstofu.

Þar segir ennfremur: „Þannig gæti félagið ráðist í umfangsmiklar sparnaðaraðgerðir þegar í stað sem felast m.a. í því að nýta sameiginlega þann mannauð sem LA og Menningarhúsið Hof hafa yfir að ráða og minnka þannig yfirbyggingu LA tímabundið. Á þann hátt nýttist opinbert framlag betur beint í framleiðslu leiklistar fremur en yfirbyggingu. Áætlað er að með þessum aðgerðum félagsins og aðgerðum Akureyrarbæjar yrði LA því sem næst skuldlaust eftir u.þ.b. 16 mánuði eða í upphafi leikársins 2013-2014. Á þeim tímapunkti væri LA aftur komið í stöðu til að ráða sér öflugan leikhússtjóra sem getur leitt félagið til nýrrar sóknar öllum til heilla án þeirra miklu skulda sem félagið ber nú og standa allri starfsemi fyrir þrifum."

Hér fyrir neðan má lesa tilkynningu frá Akureyrarstofu. Hér má lesa umfjöllun vikublaðsins Akureyri um málið.

Vegna fréttar sem birtist í morgun í Akureyri Vikublaði um málefni Leikfélags Akureyrar viljum við undirrituð taka eftirfarandi fram:

Akureyrarstofa og stjórn hennar hafa í samvinnu við stjórn LA leitað til fjölmargra aðila um mögulegar lausnir á þeim mikla rekstrarvanda sem félagið stendur frammi fyrir eftir gríðarlegan hallarekstur síðustu ára.

Þannig var meðal annars leitað til Magnúsar Geirs Þórðarsonar leikhússtjóra Borgarleikhússins, ekki síst vegna fyrri starfa hans fyrir LA og þekkingu á markaðsaðstæðum á Akureyri. Í samvinnu við hann var mótuð hugmynd sem fól í sér tímabundna, samningsbundna og ítarlega samvinnu milli LA, Borgarleikhússins og Menningarfélagsins Hofs. Hugmyndin snýr að því að gera LA kleift að standa fyrir góðu framboði og framleiðslu á metnaðarfullri leiklist á Akureyri á næsta starfsári um leið og ráðin er bót á rekstrarvanda LA. Þannig gæti félagið ráðist í umfangsmiklar sparnaðaraðgerðir þegar í stað sem felast m.a. í því að nýta sameiginlega þann mannauð sem LA og Menningarhúsið Hof hafa yfir að ráða og minnka þannig yfirbyggingu LA tímabundið. Á þann hátt nýttist opinbert framlag betur beint í framleiðslu leiklistar fremur en yfirbyggingu. Áætlað er að með þessum aðgerðum félagsins og aðgerðum Akureyrarbæjar yrði LA því sem næst skuldlaust eftir u.þ.b. 16 mánuði eða í upphafi leikársins 2013-2014. Á þeim tímapunkti væri LA aftur komið í stöðu til að ráða sér öflugan leikhússtjóra sem getur leitt félagið til nýrrar sóknar öllum til heilla án þeirra miklu skulda sem félagið ber nú og standa allri starfsemi fyrir þrifum.

Að ofansögðu má ljóst vera að lýsingin á hugmyndinni sem fram kemur í stuttu viðtali við formann stjórnar LA í vikublaðinu Akureyri er ekki nægjanlega upplýsandi og ekki er rétt að hugmyndin feli í sér að öllu starfsfólki LA verði sagt upp. Hið rétta er að hugmyndin gerir ráð fyrir að nauðsynleg þekking starfsmanna verði sameinuð á einum stað og þannig verði beinlínis slegið skjaldborg um faglega þekkingu sem er til staðar hjá LA. Einnig er rangt sem fram kemur í fréttinni að um tilboð frá Borgarleikhúsinu hafi verið að ræða: Hið rétta er að Magnús Geir og Borgarleikhúsið svöruðu ósk Akureyrarbæjar um aðstoð og hugmyndirnar voru án skuldbindinga af allra hálfu.

Það er hins vegar rétt sem fram kemur í fréttinni að áfram er unnið að því í samvinnu Leikfélagsins og Akureyrarbæjar að finna leiðir sem hafa það að markmiði að koma rekstri LA aftur á réttan kjöl.

Halla Björk Reynisdóttir, formaður stjórnar Akureyrarstofu

Þórgnýr Dýrfjörð, framkvæmdastjóri Akureyrarstofu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×