Innlent

Lýsti yfir sakleysi sínu

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, lýsti yfir sakleysi sínu í dómsal í dag við fyrirtöku í Al Thani málinu. Hinir þrír sakborningarnir mættu ekki.

Ákæran í málinu beinist gegn fyrrverandi stjórnendum Kaupþings, þeim Hreiðari Má Sigurðssyni, Sigurði Einarssyni og Magnúsi Guðmundssyni auk Ólafs Ólafssonar. Málið snýst um kaup félags í eigu sjeik Mohamed Bin Khalifa Al-Thani, bróður emírsins frá Katar, á 5 prósenta hlut í Kaupþingi fyrir rúmlega 25 milljarða króna rétt fyrir bankahrunið. Við rannsókn kom í ljós að kaupin voru að miklu leyti fjármögnuð með lánum frá Kaupþingi og er það mat sérstaks saksóknara að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða.

Brotin geta varðað allt að sex ára fangelsi og allt að níu ára fangelsi verði þeir sakfelldir og dómari ákveði að bæta við refsingu allt að helming hennar, en heimild er fyrir slíku í hegningarlögum.

Málið var fyrst tekið fyrir sjöunda mars síðastliðinn en þá mætti enginn sakborninganna fyrir dóminn og var málinu því frestað. Í dag var Sigurður Einarsson einn viðstaddur fyrirtökuna en hann er ákærður ásamt Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings fyrir umboðssvik og markaðsmiðsnotkun.

Málinu verður fram haldið 29. mars næstkomandi og lýstu lögmenn þremenninganna, sem ekki mættu, að þeir hyggist mæta þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×