Innlent

Krefst rannsóknar á því hvernig DV fékk rannsóknargögn

Guðmundur St. Ragnarsson, héraðsdómslögmaður, fer fram á að ríkissaksóknari hefji opinbera rannsókn á því hvernig gögn í yfirstandandi sakamáli geti hafa borist fréttamiðlum DV.

Sakamálið tengist alvarlegri líkamsárás sem kona varð fyrir í Hafnarfirði í desember. Í umfjöllun DV kemur fram að meðlimi Hells Angels hafi staðið að baki árásinni.

Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhald yfir þremur mönnum sem eru sagðir tengjast árásinni. Alls eru sex ákærð í tengslum við málið.

Umfjöllun DV um líkamsárásina var afar ítarleg og voru meðal annars birtar ljósmyndir af vettvangi árásarinnar.

„Sem verjandi í umræddu sakamáli hef ég þegar óskað eftir því við embætti ríkissaksóknara að fram fari opinber rannsókn á því hvernig skjöl umrædds sakamáls geti hafi borist DV og eftir atvikum öðrum fjölmiðlum," sagði Guðmundur í tilkynningu sem hann sendi fjölmiðlum.

„Hafi þessi gögn komið frá lögmönnum ákærðu í málinu, réttargæslumanni, rannsakendum eða ákæruvaldinu, er ljóst að um stórfellt trúnaðarbrot er að ræða og líklega lögbrot."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×