Innlent

Bjarni skýtur fast á Jóhönnu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Íslenska krónan er forsenda þess litla hagvaxtar sem Jóhanna Sigurðardóttir stærir sig af, sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á flokksráðsfundi sjálfstæðismanna í Kópavogi í dag.

Í ræðu sinni gerði Bjarni gjaldmiðlamál að umræðuefni. Hann sagði að mjög hefði skort á yfirvegun og varúð í umræðu um gjaldmiðilinn að undanförnu. „Þegar við horfum nokkra áratugi aftur í tímann er öllum ljóst að íslenska krónan hefur verið óstöðugur gjaldmiðill. Þó er það svo, að þegar ríkissjóður hefur verið rekinn af ábyrgð með aðhaldssamri stefnu, sátt hefur verið á vinnumarkaði um að vinna gegn verðbólgu og lögð hefur verið áhersla á skynsamlega nýtingu auðlinda og verðmætasköpun í landinu, þá hefur krónan aldrei brugðist okkur og að jafnaði verið stöðug. Þannig má segja að krónan hafi ekki gert annað en að endurspegla ástandið í efnahagsmálum hverju sinni," sagði Bjarni.

Hann sagði að í Evrópu hafi það umfram annað verið pólitískir hagsmunir sem réðu því að hin sameiginlega mynt, evran, var innleidd. Enn væri gríðarleg óvissa um framtíð evrusamstarfsins og það myndi hugsanlega liðast í sundur vegna lítils hagvaxtar og skuldsetningar ríkja. Enn er þó gríðarleg óvissa um framtíð evrusamstarfsins. Vel má vera að það liðist í sundur þrátt fyrir aðgerðapakkann vegna lítils hagvaxtar og skuldsetningar einstakra ríkja. „Þetta sjá allir aðrir en Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sem segir evruna okkar einu von. Hún áttar sig ekki einu sinni á því, að það er íslenska krónan, sem er helsta forsenda þess litla hagvaxtar sem hún stærir sig af," sagði Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×