Innlent

Segir borgarstjóra hundsa skoðanir almennings

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir oddviti sjálfstæðismanna.
Hanna Birna Kristjánsdóttir oddviti sjálfstæðismanna.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, gagnrýnir harðlega að Jón Gnarr borgarstjóri hafi í gær undirritað samkomulag um lóðir og skipulagsmál í tengslum við framtíðaruppbyggingu Landspítala Háskólasjúkrahúss og Háskóla Íslands norðan Hringbrautar.

„Að borgarstjóri undirriti samkomulag um þetta skipulag, án þess að fyrir liggi samþykki skipulagsráðs eða formleg kynning til íbúa, bendir til þess að lítið verði gert með skoðanir kjörinna fulltrúa og almennings í Reykjavík. Þetta er stórt mál sem þolir illa óvönduð vinnubrögð - samkomulag við ríkið átti því ekki að undirrita fyrr en að loknu lögbundnu og mikilvægu samráðsferli," segir Hanna Birna á fésbókarsíðu sinni.

Það voru borgarstjóri, fjármálaráðherra og velferðarráðherra sem undirrituðu samkomulagið í gær. Samkomulagið er háð endanlegu samþykki og gildistöku deiliskipulags á svæðinu, eftir því sem fram kom í fréttatilkynningu sem send var út vegna samkomulagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×