Innlent

Kaþólikkar á Vestfjörðum ósáttir - undirskriftalisti sendur á biskup

Frá Patreksfirði
Frá Patreksfirði
Kaþólskir á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal kvarta undan því að ekki séu haldnar kaþólskar messur á sunnanverðum Vestfjörðum og vilja að skoðað verði að byggja kaþólska kirkju á Patreksfirði.

Rúmlega hundrað undirskriftir Kaþólikka á svæðinu voru sendar Pétri Bürcher, kaþólska biskupnum, í morgun.

Vestfirskir kaþólikkar segja að svo virðist sem þau hafi gleymst af hálfu kirkjunnar þar sem ekki hafa verið haldnar messur á svæðinu lengi. Þau segjast órétti beitt og krefjast þess að haldnar verði messur að minnsta kosti tvisvar í mánuði á sunnannverðum Vestfjörðum og að byggð verði kaþólsk kirkja á Patreksfirði.

Þess má geta að Patreksfjörður heitir eftir verndardýrlingi írskra kaþólikka, og Patreksfirðingar hafa haldið upp á Dag Heilags Patreks.

106 kaþólikkar skrifuðu nafn sitt undir yfirlýsinguna sem send var biskup í morgun:

Við undirrituð hér á suðursvæði Vestfjarða, þ.e. í Tálknafjarðarhreppi og Vesturbyggð sem játum kaþólska trú, finnst eins og við höfum gleymst af hálfu kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, þar sem ekki hafa verið haldnar messur hér lengi. Í nýútkomnu „Kaþóslka kirkjublaði", fyrir mars og apríl, er hvergi getið um messur á Bíldudal, Tálknafirði né á Patreksfirði. Við erum órétti beitt og teljum okkur eiga sama rétt og íbúar annars staðar á landinu. Við krefjumst þess að kaþólskar messur verði haldnar a.m.k. tvisvar sinnum í mánuði hér á svæðinu og það verði jafnframt skoðað í fullri alvöru að byggð verði kaþólsk kirkja á Patreksfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×