Innlent

Ætla að telja allar kanínur í Reykjavík

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Þarna er allavega ein kanína.
Þarna er allavega ein kanína.
Fyrsta almenna kanínutalningin fer nú fram í Reykjavík. Með henni á að reyna að finna út hversu margar villtar kanínur er að finna innan borgarmarkanna.

Síðustu ár hafa kanínur sést í ríkara mæli á útivistarsvæðum í og við borgina. Reykjavíkurborg hefur lagt af stað með umfangsmikið verkefni til að komast að því hversu margar villtar kanínur eru í borgarlandinu. Talningin hófst í síðustu viku.

„Þetta er sá tími ársins sem þær eru væntanlega í lágmarki. Nú hefur veturinn hoggið skörð í stofninn og þær eru ekki byrjaðar að fjölga sér enn, það fer að koma að því bráðum. Þetta er sá tími sem að við viljum sjá hvað er mikið af þeim," segir Arnór Sigfússon, deildarstjóri umhverfisdeildar Verkís.

Talið er á þeim svæðum þar sem kanínurnar hafa helst haldið sig það er við Rauðavatn, Rauðhóla, Elliðavatn og í Elliðaárdal og einnig í Öskjuhlíðinni. Líffræðinemar sjá um talninguna en talið er snemma morguns við ljósaskiptin.

„Þau ganga bara í rökkrinu með vasaljós og rólega og telja þær kanínur sem verða á vegi þeirra og merkja þær inn á kort. Út úr þessu reiknum við svo hvað er mikill fjöldi á kílómeter genginn," segir Arnór.

Þetta er fyrsta almenna kanínutalninginn sem gerð er á öllu borgarsvæðinu.

„Kanínur geta orðið vandamál í framtíðinni hér. Það er þekkt erlendis frá að þær hafi náð að fjölga sér og þær geta valdið tjóni á gróðri. Gera það á trjá og blómum og víðar, þar ekki vilji fyrir því að þær dreifi sér of víða," segir Arnór að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×