Innlent

Björgvin segist ekki hafa verið leyndur upplýsingum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgvin G. Sigurðsson ber vitni fyrir Landsdómi í dag.
Björgvin G. Sigurðsson ber vitni fyrir Landsdómi í dag. mynd/ gva
Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, segist alls ekki hafa fengið minni upplýsingar en aðrir um starf samráðshóps um fjármálastöðugleika. Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari sagði í vitnaleiðslum fyrir Landsdómi í morgun að upp hefðu komið ásakanir um að hann hefði verið lausmáll og spurði hvort það gæti hafa orsakað að hann hefði fengið minni upplýsingar en aðrir ráðherrar um starf hópsins.

„Nei – ég fékk ekki minni upplýsingar en aðrir um hann," sagði Björgvin. Ráðuneytisstjórar forsætisráðuneytis, viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis sátu í samstarfshópnum auk fulltrúa frá Seðlabanka og Fjármálaeftirliti. Björgvin sagðist telja að allir ráðuneytisstjórarnir hafi með sambærilegum hætti gert grein fyrir starfi hópsins. „Hitt er náttúrlega bara eins og hver annar þvættingur, " sagði Björgvin.

Geir H. Haarde var líka spurður út í þetta atriði í gær. Hann sagðist ekki telja að Björgvin hafi verið markvisst leyndur neinu. Hins vegar hafi verið tekin pólitísk ákvörðun um það af Samfylkingunni að hafa hann ekki með á ákveðnum fundum. Geir sagði að hans hlutverk hefði verið að vera í sambandi við Ingibjörgu Sólrúnu sem var formaður samstarfsflokksins í ríkisstjórn.

Fram hefur komið að Björgvin var ekki kallaður til funda í Seðlabankanum helgina sem ríkið ákvað að taka yfir 75% hlut í Glitni í lok september 2009. Jón Þór Sturluson var fenginn til fundarins í hans stað. Hann sagði við Andra Árnason, verjanda Geirs, fyrir Landsdómi að hann hefði gert athugasemd varðandi þetta við Geir og Ingibjörgu eftir helgina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×