Björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ, lenti með þrjá göngumenn á Hvolsvelli nú fyrir stuttu. Mennirnir þrír lentu í sjálfheldu í hlíðum Eyjafjallajökuls fyrr í kvöld.
Mikill vindur og skafrenningur var á svæðinu og fimbulkuldi. Göngumennirnir voru vel búnir og höfðu samband við lögregluna þegar ástandið versnaði.
Ekki er vitað til þess að slys hafi orðið á mönnunum.
Þyrla Landhelgisgæslunnar lagði af stað um níuleytið í kvöld og náði til mannanna rúmri klukkustund seinna.
