Innlent

Viðbúnaðarstig á Reykjavíkurflugvelli vegna bilunar í aðvörunarbúnaði

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Viðbúnaðarstigi var lýst yfir á Reykjavíkurflugvelli í morgun þegar Fokker 50 vél Flugfélags Íslands í aðflugi tilkynnti um viðvörunarljós í mælaborði.

Vélin var að koma frá Egilsstöðum en um borð voru tuttugu og sex farþegar auk þriggja áhafnarmeðlima. Í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli kviknaði á viðvörunarljósum í flugstjórnarklefanum þegar flugmenn vélarinnar settu lendingarbúnað hennar niður.

Svo virtist sem lendingarbúnaðurinn hafi ekki læst sig tryggilega öðru megin. Flugmennirnir tilkynntu því turninum um aðvörunina og í samræmi við verklagsreglur hófst viðbúnaðaráætlun Reykjavíkurflugvallar þegar turninn lýsti yfir viðbúnaðarstigi.

Fljótt kom þó í ljós að bilun í aðvörunarbúnaði vélarinnar var að ræða, en ekki í lendingarbúnaðinum. Þessu komust flugmenn vélarinnar að með því einu að líta út um gluggann, en þar mátti glögglega sjá að ekkert var að lendingarbúnaðinum.

Klukkan fimm mínútur yfir tíu lentu þeir því vélinni með eðlilegum hætti á Reykjavíkurflugvelli.

Farþegum var tilkynnt um viðvörunarljósið og aðstæður eins fljótt og hægt var um boð en eftir að farþegar voru komnir inn í flugstöð fór flugstjóri vélarinnar svo yfir atvikið með þeim og útskýrði enn frekar hvað hafði gerst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×